Þankar um lélegan lesskilning eða vísvitandi ósannindi

Sælt veri fólkið!

Síðan ég lenti hér alveg óvart inn á "netgreinum" hef ég orðið margs vísari um viðhorf fólks til núverandi ástands gróðurs á landinu okkar. Flestir sem hér hafa tjáð sig eru mjög eða nokkuð ánægðir með það en nokkrir alls ekki. Látum það vera, það er allt í lagi að fólk sé ekki endilega sammála um allt. Hitt er verra, þegar ég er skömmuð fyrir "ranga" skoðun, sem ég ætti að skammast mín fyrir að tjá mig um, en þó öllu verst þegar menn annað hvort lesa vitlaust eða rangtúlka skrif mín viljandi , máli sínu til stuðnings. Þarna er ég sem sagt að tala um lygina. Óviljandi (lélegur lesskilningur) eða viljandi (ósannindi). Ekki skal ég dæma um það.

En málið er að tvær konur hafa valið að hörfa undan héðan úr minni umræðu um ástandið og hafið umræður á sínum bloggum, því þar hafa þær sína áhangendur sem eru flestir á sömu skoðun og þær. Þar sem ég á fullt í fangi með að svara fyrir mig hér, (vegna vinnu minnar sem aðstoðarmaður húsamálara, ha, ha,)  ætla ég ekki að svara á mörgum bloggum fyrir skrif mín, en  gera það bara hér, á mínu bloggi. Hér sem sagt koma athugasemdir við alvarlega röngum upplýsingum sem þær gefa á sínum bloggum um mín skrif.

Renata (reni) nokkur gerir athugasemd á sínu bloggi, við mínu bloggi. Þar er allt ranglega eftir mér haft, þó keyrir um þverbak er Ragnhildur nokkur (kolgríma) tekur undir og segir að hjá mér komi fram "algjört virðingarleysi fyrir náttúrunni, sem sé ekki nema von hjá manneskju sem líti á Ara og Sæmund hina fróðu, Njál og Snorra, sem algjöra vitleysinga sem kunni ekki einu sinni prósentureikning eins vel og hún. Og svona fólki eigi að treysta fyrir íslensku flórunni."  Rökin eru sem sagt þau að þar sem ég trúi ekki orðum gömlu mannanna sé ég ekki hæf til að passa upp á íslensku flóruna. (Treysta fyrir/gæta/passa.)

Renata bætir svo við að ég " sé svo afskaplega "fróð" og segi alla bændastéttina á Íslandi ekki kunna til verka".

Og hvað hafa dömurnar svo fyrir sér í þessum staðhæfingum? Jú.......þetta:Ragnhildur hefur lesið spurningar frá Sigrúnu Jónu, þar sem hún spyr hvort ég hafi verið uppi á Landnámsöld og hvort ég haldi að allt sé dagsatt sem standi í Íslendingasögunum, eða bara bókum yfirleitt. Ég sagðist náttúrulega ekki þurfa að svara þeirri fyrri en þeirri seinni svaraði ég neitandi. Sem þýðir einfaldlega það að ég tryði ekki að allt væri dagsatt (sumt en ekki allt).  Ekki nokkur maður nefndur á nafn, svo Ragnhildur er að fara með ósannindi, máli sínu til stuðnings. Sama gerir Renata. Finn reyndar ekki neitt á mínu bloggi sem gæti útskýrt þessa túlkun hennar á skrifum mínum.

Ég skil ekki hvaða tilgangi svona málflutningur á að þjóna.

Svo vonast ég eftir málefnalegri umræðu í framtíðinni, en ekki útúrsnúningum og rangtúlkunum á því sem ég hef látið á prent. Þið megið hafa ykkar skoðun á málum, þó ég sé ekki á sama máli, heldur reyni að koma með eitthvert mótsvar.  T.D. var birting mín á "Lúpínugreininni" mótsvar við endurteknum ofsóknum (nornaveiðum) sem nú eru í umræðunni, gegn svokölluðum "útlendum" plöntum sem sumar hverjar hafa lifað lengur í landinu en elstu menn í dag. (T.d. Furulundurinn á Þingvöllum.)

Bestu kveðjur,

Margrét


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolgrima

Sæl Margrét -

Ég verð að viðurkenna að sem mikill aðdáandi þeirra Njáls og Snorra, slógu orð þín mig verulega út af laginu: "Þetta eru staðreyndir og ekkert sem ég hef lesið í Íslendingasögum. Enda efast ég um að þeir hafi kunnað prósentureikning." Þetta eru þín orð, úr þinni athugasemd við þína netgrein. Þeir félagar og samtímafólk þeirra hefur kannski aldrei skilið, hvað átt var við með þessari tíund sem svo víða er tíunduð?

Þú hefur ítrekað talað um að 75% af landinu hafi verið þakið gróðri og ég hef beðið eftir að sjá hvaða heilmild(ir) þú hefur fyrir því. Ég hef víða leitað og hvergi fundið svo háa prósentutölu, ekki að það sé svo sem mergurinn málsins hvort gróður hafi þakið hér 10, 20 eða 30 prósentunum meira eða minna af landinu. Ég efast ekki um að ágangur manna og dýra hafi haft áhrif á gróðurfar hér á landi og full ástæða til að sporna við honum. Mikið hefur batnað í þessum efnum á undanförnum árum en betur má ef duga skal.

Við erum hins vegar ekki sammála um hvað séu náttúruspjöll. Mér finnst það vera náttúruspjöll að móta náttúruna eftir eigin smekk, taka fram fyrir hendurnar á náttúrunni ef svo má að orði komast – jafnt þótt það sé gert af góðum hug. Í mínum huga er það að sýna náttúrunni óvirðingu.

Ég hef hvergi nafngreint þig á minni síðu né sagt neitt þar sem gefur til kynna að ég sé að vísa í þín skrif. Ég hef heldur ekki hörfað, geri mér einfaldlega grein fyrir því að hvorug mun sannfæra hina og sé því ekki ástæðu fyrir okkur að rökræða málið frekar. Ég sé ekki betur en að við verðum að vera sammála um að vera ósammála.

Með bestu kveðju, Ragnhildur

Kolgrima, 22.7.2007 kl. 22:53

2 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Heil og sæl Ragnhildur!

En slítur þú skrif mín úr samhengi því í þessa tilvitnun sem þú vitnar í er ég að tala um stærð og ástand gróðurhulunnar fyrr og nú og að þær upplýsingar (sem ég gef mér sem staðreyndir)hafi ég ekki fengið  úr Íslendingasögunum, heldur úr öðrum bókum. Ég skal hins vegar fúslega draga í land með prósentureikninginn. Hann hefur sjálfsagt ekki vafist fyrir þeim sem rukkuðu inn tíundina, satt segir þú. En það hefur varla verið almenn þekking.

Þar sem þú hefur ekki fundið neinar upplýsingar um þessar staðhæfingar mínar, skal ég benda þér á eina ritgerð úr öðru tbl. skógræktarrits Skógræktarfélags Íslands, 2001. Höfundur ritgerðarinnar (sem er B.Sc lokaverkefni) er Björg Gunnarsdóttir. Í þessari ritgerð er hún að kanna hvar í Íslendingasögunum er minnst á gróður. Á bls. 66 segir."Margir hafa stigið fram á ritvöllinn og fjallað um gróðurfar við landnám á fræðilegan hátt. Sumir hafa reynt að draga saman í yfirlitsgreinum þá þekkingu sem til er". Síðan heldur hún áfram og vitnar í 22 heimildir sem allar eru svo í heimildaskrá á bls. 76 0g 77.  Í lok þessa kafla segir hún svo:" Allar eiga þessar rannsóknir það sammerkt að nákvæmni niðurstaðna, hvað varðar gróðurfar liðins tíma, er takmörkuð, en það virðist samdóma álit þeirra sem um málið hafa fjallað að gróður hafi þakið  allt að þremur fjórðu hlutum landsins og um 15 -35% heildarflatarmáls landsins hafi verið þakin skógi. Í dag er gróðurþekjan 25% og skóglendi einungis um 1% af flatarmáli Íslands."

Meira á eftir.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 23.7.2007 kl. 08:38

3 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl aftur Ragnhildur!

Þá er að koma sér að næstu atriðum bréfs þíns. það er satt, þú nafngreinir mig ekki á þínu bloggi, það sá Haukur Dór um. Svo það fór ekkert á milli mála um hvað greinar þið voruð að ræða, hvorki á þínu bloggi né Renötu. Svo sem allt í lagi en svolítið óþægilegt fyrir mig að svara fyrir mig á mörgum stöðum. En það kemur kannski að því.

Jú við erum reyndar sammála um nokkur atriði sé ég, eins og orsök gróðureyðingar og að mikið hafi verið gert undanfarið til að bæta ástandið. En við erum ekki sammála um hvað sé "óvirðing" við landið og hvað "náttúruspjöll".  Ég vil beita öllum tiltækum ráðum til að endurheimta gróðurhuluna á ný en þú vilt , hvað?.

 Ég veit að mörg svæði myndu jafna sig sjálf, bara við þá einföldu aðgerð að friða það. Önnur eru svo illa farin að beita þarf öðrum úrræðum eins og t.d. að nota lúpínuna í 20- 30 ár. "Hún hefur þá hæfileika að búa í sambýli við örverur sem vinna nitur úr loftinu. Nitur (köfnunarefni) er það næringarefni sem helst skortir í jarðveginn. Niturbindandi plöntur þrífast því ágætlega á snauðu landi og henta sérstaklega vel til uppgræðslu".  (Upplýsingar úr bókinni "Að lesa landið" eftir doktor Ólaf Arnalds.) 

Eftir þessi 30 ár hafa fleiri tegundir komið sér þar fyrir og upplagt að nota svæðið sem beitarland á ný. Lúpínan er horfin eftir svona tveggja til þriggja ára sumarbeit. Grastegundum má sá í svæðið og fá þá enn betra beitarland.

Margir eru hræddir við breytta ásýnd landsins þar sem skógar rísa. Lítum á dæmið. Margir/flestir sem að skógrækt koma telja að nú þeki skógar (ungir og gamlir) um 1.3% landsins. Og þetta er nú allt og sumt þrátt fyrir rosalega mikla skógrækt undanfarin ár. Ég held persónulega að þetta hljóti að nálgast 2%, en það er nú bara mitt hugboð. Ég las reyndar viðtal við Guðfinnu S. Bjarnadóttur (alþingismann og formann stjórnar Kolviðar) á dögunum, í tímaritinu "Gróandinn", og í því viðtali notar hún tölun 1.3% í dag, en segir að tæplega þriðjungur landsins hafi verið skógur hér áður fyrr.  Hún segir:" Tvö hundruð þúsund einkabílar landsmanna losa um 750 þúsund tonn af koldíoxíði árlega og til að jafna það þarf að planta sjö milljón trjám á hverju ári. Þó það virðist há tala, þá þekja þau tré ekki nema 0.023% af landinu, svo við erum að tala um nærri 45 ár áður en Kolviðarskógarnir þekja eitt prósent  (1%) af landinu."  Það er nú allt og sumt og nóg af auðnum (eyðimörkum) í víðáttunni til staðar enn.

 Og ég segi, að þar sem skógur þakti landið að einhverju ráði hér áður fyrr er það engin óvirðing að reyna að endurheimta hann og þá ekki náttúruspjöll. Og þar sem  mikill gróður  (75%?) þakti landið en nú bara lítill (25%) eru það engin náttúruspjöll að endurheimta hann, hvað þá óvirðing. En deila má um tegundirnar.

Læt þetta nægja að sinni.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 23.7.2007 kl. 09:27

4 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Eitt enn Ragnhildur!

 Ég vil benda þér á að leita upplýsinga í ritum Landgræðslunnar, "Græðum Ísland". Svo og á landbunadur.is,  kvasir.is,  kolvidur.is og já, bara öllu sem þér dettur í hug. Þú finnur örugglega einhverjar haldbærar tölur þótt þú trúir ekki mínum upplýsingum.

Gangi þér, og öllum öðrum fróðleiksfúsum lesendum, vel.

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 23.7.2007 kl. 12:24

5 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Góðan dag Haukur Dór!

Ég var ekki að tala um þitt blogg. Ég var að tala um Ragnhildar blogg.

Hún sagðist ekki hafa nafngreint mig á sínu bloggi en ég sagði að þú hefðir séð um það. Mér láðist að segja;fyrir hana, því í hennar bloggi stendur:"Ég hef fylgst með umræðunni í kjölfar netgreinar Margrétar Jónsdóttur og þú hefur komið með mikilvægan  mótpól í umræðuna". Þín undirskrift. Hvað ætti ég að kalla þetta annað en að nafngreina mig á hennar bloggi.

Mundu svo að málið snýst ekki um mig og mína persónu, heldur eyðimörkina Ísland, sem er ein stærsta manngerða eyðimörk í heimi.

Hvernig gengur að safna sönnunargögnum?

Hér er ein uppástunga sem ætti að vera skyldulesning í öllum skólum. Það er grein eftir Sigurð Arnarson sem birtist í Skógræktarritinu 2002, í 1. tbl.

Kíktu svo á rala.is (Landbúnaður, lb.háskólinn og fleira.)

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 24.7.2007 kl. 06:11

6 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Blessaður!

Jú, ég kann vel við að vera nafngreind. Betra en að talað sé undir rós um mig eins var gert á einu blogginu. Það er algjör misskilningur að ég hafi verið að kvarta undan því. Það var bara hún Ragnhildur sem sagðist ekki hafa nafngreint mig á sínu bloggi og ég sagði að þú hefðir séð um það. (Að nafngreina mig á hennar bloggi.) Og það er bara allt í lagi og reiðilaust af minni hálfu.

Vona svo að þú jafnir þig á þessu að hafa komið svona óvart við sögu hjá okkur Ragnhildi.

Þarf ekkert að gefa þér upp hvernig ég kynni mér málin. Haltu bara áfram að lesa það sem ég hef bent þér á. Af nógu er að taka. Með og á móti málstaðnum. Eða hvers vegna í ósköpunum baðstu mig um sönnunargögn?

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 24.7.2007 kl. 15:29

7 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Gott veri kvöldið Haukur Dór!

Já takk, njóttu sömuleiðs kvöldsins. Ég elska landið svo mikið að ég vil gera ýmislegt til þess að það fái eitthvað af gróðri og jarðvegi til baka.

Seinna gefur þú þér tíma til að benda á "öfgar" og "djöfulgang" í mínum skrifum. Aldrei að vita nema ég geti eitthvað lært af því............ef það á við rök að styðjast sem þú vilt benda á.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 24.7.2007 kl. 21:11

8 Smámynd: Kolgrima

Sæl Margrét.

Það er rétt hjá þér að ég sagði í athugasemd á bloggi: "Það versta sem kom fram í þessari grein, er hið algjöra virðingarleysi gagnvart náttúrunni. Sem er ekki nema von hjá manneskju sem lítur á Ara og Sæmund hina fróðu, Njál og Snorra sem algera vitleysinga sem kunnu ekki prósentureikning eins vel og hún! Og svona fólki á að treysta fyrir íslenskri flóru?

Ástæðan er hins vegar alls ekki sú sem þú tiltekur í pistlinum hér að ofan (ég skil bara ekki hvernig þér dettur það í hug), heldur þessi:

Þú heldur því ítrekað fram að 75% landsins hafi verið þakið gróðri við landnám. Skv. erindinu Gróðurmörk á Íslandi utan eldvirka beltisins, sem haldið var á Fræðaþingi landbúnaðarins 2006, stenst þetta engan veginn. Höfundar erindisins eru þau Björn Traustason, Sigmar Metúsalemsson, Einar Grétarsson, Fanney Ósk Gísladóttir og Ólafur Arnalds. Sá síðastnefndi er einn af þeim örfáu fræðimönnum sem þú sjálf hefur nefnt á nafn, auk þess sem þú hefur hvatt fólk til að kynna sér skrif hans. Í þessu erindi segir meðal annars:

"Gróðurmörk hafa sveiflast mikið frá lokum síðasta jökulskeiðs. Gróðurmörkin hækkuðu á hinum hlýjustu skeiðum, en þegar útbreiðsla gróðurs var í hámarki fyrir um 8000 – 7000 árum huldi gróður um 61% lands og meðalgróðurmörk hafa verið u.þ.b. 720 m samkvæmt niðurstöðum Rannveigar Ólafsdóttur o.fl. 2001."

Með öðrum orðum, þegar gróður var í hámarki fyrir 7-8000 árum (óralöngu fyrir landnám), huldi gróður 61% lands.

"Fyrir um 2500 árum fór veðurfar kólnandi og gróðurmörkin lækkuðu. Um landnám er landið talið vel gróið til fjalla og telur Steindór Steindórsson (1994) að þá hafi gróðurmörkin almennt verið a.m.k. í 400 – 600 m á hálendi landsins og víða hærri. Hann leiðir að því líkum að víða á vestanverðum Sprengisandi hafi verið gróið í 600 – 650 m hæð. Þá telur hann að um landnám hafi Vaðlaheiði verið algróin í 600 – 700 m hæð yfir sjó. Gróðurmörk á Vestfjörðum hafa að hans mati breyst lítið, en þar eru hlíðar víða lágar og brattar. Hann telur að ákveðin svæði landsins hafi ávallt verið lítt gróin s.s.Hofsafrétt norður af Hofsjökli."

Samkvæmt þessu, huldi gróður töluvert minna en 61% af landinu við landnám.

Ég lét ofangreind orð falla, vegna þess að mér fannst þú fara kæruleysislega með prósenturnar, en sjálf segir þú:"En rannsóknir íslenskra vísindamanna á sögum, jarðvegi, gróðurfari og fleiru hafa sýnt að hér hefur gróður þakið landið um 75% af því, við landnám, en nú er gróðurhulan ekki nema um 25%, þar af um eða innað við 4% alveg heil gróðurþekja og hitt rofið. Sumt lítið, annað meira og enn annað mikið. Þetta eru staðreyndir og ekkert sem ég hef lesið í Íslendingasögum. Enda efast ég um að þeir hafi kunnað prósentureikning."

Og einhvern veginn fór í taugarnar á mér að þú skyldir sópa reikningskunnáttu Íslendingasagnaritara svo léttilega af borðinu, þegar þú virðist sjálf ekki vera ýkja nákvæm í meðferð talna, sem þú þó kallar staðreyndir.

Þú virðist líta á það sem persónulega árás að vera innt eftir heimildum. Talar um að þú sért beðin um sönnunargögn  - og feitletrar það orð sjálf. Ég verð nú að hrósa þér fyrir nýstárlega nafngift á heimildum en notkun og meðferð heimilda er hluti af vönduðum vinnubrögðum - þótt þetta sé í fyrsta skipti sem ég hef séð vísað til þeirra sem sönnunargagna! Það, að biðja einhvern um heimildir, er ekki að efast um orð viðkomandi. Það er óralangt í frá að það teljist til almennrar þekkingar, að 75% af landinu hafi verið þakið gróðri við landnám, og með því að biðja um heimildir, er einungis verið að sýna áhuga.

Mér finnst þú sýna náttúrunni virðingarleysi á ýmsan hátt. Á sama tíma og þú þenur gróðurmörk við landnám til hins ýtrasta baráttumáli þínu til stuðnings, gerir þú lítið úr íslenskri flóru og segir: "Og í görðum okkar væru bara blágresi, fíflar og sóleyjar, sem mér reyndar finnast hinar fegurstu jurtir. En.....ég vil fleiri tegundir." Sex ára drengur segir frá því á sínu bloggi, að hann hafi farið í gönguferð með móður sinni um Elliðadalinn og fundið 74 tegundir af íslenskum jurtum. Sex ára. Já, það stendur í mér að treysta hverjum þeim fyrir íslensku flórunni sem gerir jafnlítið úr henni og þú gerðir með þessum orðum, og lái mér hver sem vill.

Mér finnst líka eins og ég hef áður sagt, að það séu náttúruspjöll að móta náttúruna eftir sínu höfði. Þú ert ekki sammála því og það vitum við báðar. En að tala um að endurheimta gróðurfar í merkingunni að breyta því, er einfaldlega rangt.

Bloggið mitt um landgræðslu var um mín viðhorf, ekki þín. Haukur Dór gerði athugasemd, þar sem meðal annars segir: "Ég hef fylgst með umræðum í kjölfar netgreinar Margrétar Jónsdóttur og þú hefur komið með mikilvægan mótpól í umræðuna."

Einhvern veginn hefur þér tekist að setja málið þannig upp að við séum með einhverja aðför að þér en það er bara ekki rétt. Þar að auki segir þú mig fara með ósannindi og ég vil gjarnan fá að vita hver þau eru.

Ragnhildur

Kolgrima, 24.7.2007 kl. 22:47

9 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Daginn aftur!

Já, ég sagði þér að á þessum vefum væru menn með og á móti málsstaðnum. Svo þú skalt ekki láta eina grein nægja. Lestu svo meira eftir Ólaf. Hann hefur örugglega verið búinn að nefna búsetuna í landinu áður en hann kom að veðrum og vindum. Ég veit svo sem ekki hversu oft ég hef nefnt náttúruöflin, en frumörsökin er eyðlegging mannsins. Svo taka náttúruöflin við. Þau mega sín lítils í þéttri og heillri gróðurþekju, en sé komið rof þá er voðinn vís.

Ég vil benda þér á að ég hef alltaf sagt að það ætti að hætta beit á viðkvæmum stöðum, svo sem eins og í bröttum hlíðum , þar sem gróðurtorfurnar eru að leka niður hlíðarnar (t.d. víða fyrir austan), og á gjörspilltum afréttum, svo og í kjarri. Við komumst náttúrulega ekki hjá því að hafa þær einhvers staðar á beit, en þá á heilum svæðum......í beitarhólfum. Tegundum þar mun þá fjölga, eftir því sem Anna segir. Og mín "hatramma barátta" (eins og þú segir) felst í því, fyrst og fremst að vilja ekki borga með beit á viðkvæmum svæðum. Viðkvæm gróðurhula má sín lítils í snjóléttum, köldum vetrum, þurrum veðrum og hvassviðri. Það þarf að friða hana.

Tókstu eftir að birkið verður þétt við afnám beitar? Er það ekki ánægjulegt? Og tókstu eftir að sums staðar eru skepnur notaðar til að halda niðrir lággróðri sem orðinn er "of mikill". Þetta hef ég líka margsinnis bent á . Það er hægt að láta ræktun og beit fara saman, það þarf bara að stýra henni.

Ég er á svæði sem var friðað fyrir 23 árum. Þar hefur orðið mikil tegundabreyting og fjöldinn alveg ótrúlegur. Má vera að tegundum fækki sumstaðar þar sem duglegar plöntur ná yfirhöndinni. Ekkert neikvætt svo sem við það. Þar í dal eru nokkrar jarðir sem enn er beit á. Og þvílíkur tegundamismunur. Á beitarjörðum er næstum því ekki ein einasta blómjurt, hvorki lúpína, blágresi, sóley, hvönn, njóli, holtasóley, gulmura, né bara nokkurt blóm. Ein og ein fífa á stangli og ein og ein sóley. En á þeim friðuðu blómstrar allt. Blómabreiður. Í vegköntum, þar sem lúpínan var alls ráðandi fyrir mörgum árum hafa nú bæst við blágresi, sóleyjar, hvönn og ótal aðrar plöntur. Lúpínan á undanhaldi enda búin að búa til næringarríkan jarðveg fyrir aðrar tegundir.

Þú hlýtur að finna ótal greinar í viðbót um rof og rofdíla, svo og jarðvegseyðingu, gróðureyðingu, auðnir, moldur, mela og fleira. Ein eða tvær greinar nægja ekki. Ég las líka um daginn grein þarna á vefnum um beit í kjarrskógum á Norðurlandi. Útkoman var góð fyrir bændur, því þeim finnst gott að láta "klippa" kjarrið, en ég vil hafa það "óklippt" og friðað.

Svo get ég líka tekið undir hóflega beit á góðum stöðum. Sé gott fyrir plöntur að vera klipptar í görðum til að fá þær til að þétta sig, getur sama gerst þegar kindin klippir. En það er bara meiri hætta á að hún klippi of mikið stundum.

Haltu svo áfram að lesa. Byrjaðu nú á bókinni "Jarðvegsorf á Íslandi" og svo á bókinni "Að lesa landið". Síðan á þessum ritgerðum sem ég hef bent á í Skógræktarritinu. Og svo auðvitað endilega á öllum þessum leitarsvæðum sem ég hef nefnt. Landgræðlsuritin eru mikil uppspretta fróðleiks um þessi mál.

Ætla svo að lesa þessa ritgerð Önnu, en nú er það vinnan sem kallar.

Annars las ég nokkrar greinar áður en ég fór að sofa í gærkvöldi. Ein var eftir Ævar Jóhannesson sem verðlaunaður hefur verið fyrir drykk sem hann kallar lúpínuseyði og hefur látið krabbameinsveiku fólki í té án endurgjalds, í mörg ár. En greinin var um annað. Margir sjá nefnilega tækifæri í að nýta lúpínu, hvönn og njóla og fleiri plöntur til lyfja- og snyrtivöruframleiðslu. Gæti hugsanlega orðið næsta stóriðja.

Nei, heyrðu nú, ertu dómstóll? Á ég að fara að sækja vitni? Nei, lestu bara þetta sem fræðimennirnir hafa skrifað og mótaðu þér svo skoðun á málinu.

Góðar stundir,

Margrét

Þetta orð "hugsjón" tók ég upp eftir einum bloggaranum. Hann sagði að starf bænda væri hugsjón, en mér hefur trúlega láðst að láta það í gæsalappir þegar ég notaði það. Það er sem sagt ekki frá mér komið. Passa mig næst ef ég þarf að nota það.

Margrét Jónsdóttir, 25.7.2007 kl. 06:30

10 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Daginn Ragnhildur!

Ég vil taka það fram hér og nú að hvert orð sem ég skrifa hér á bloggið er mín skoðun, mótuð af minni eigin upplifun af landinu og lestri greina hingað og þangað. Ég ber alfarið ábyrgð á þeim.

Það er allt satt sem þú hefur eftir mér og stend ég við allt nema, er þegar búin að draga til baka  efasemdir mínar um almenna þekkingu landnámsmanna á prósentureikningi. Ég endurtek að fæst af því sem ég hef sagt hér hef ég úr Íslendingasögum, en úr öðrum stöðum. En þetta var ég búin að segja áður, en þú kannski ekki náð því.

Já, mér finnst ég standa hér í vitnastúku þar sem ég þarf að sanna mitt mál. Ég er beðin um sönnunargögn fyrir staðhæfingum mínum og nú síðast (Haukur Dór) beðin um að fá fólk til að staðfesta  það sem ég hef haft eftir því.

Já, lýsingin á garðinum þínum er falleg og ég tek heils hugar undir það að svona blómaengi eins og þar, í Elliðarárdalnum, í sumarbústaðalandinu mínu, eða hvar sem er er hreint út sagt dásamlega fallegt. Og einmitt gaman að fara með barnabörnunum um svæðin og telja tegundir. En vita skaltu líka að þessi tegundafjöldi væri þarna ekki til staðar ef fé væri á beit.

Og nú að kjarna málsins. Menn hafa deildar meiningar um stærð gróðurþekjunnar. Flestir eru á því að hún hafi verið um 75% ekki allir, flestir. Varstu búin að lesa greinina sem ég benti þér á í Skógræktarritinu? Þar er vísað í 22 heimildir um þessar vangaveltur. En hversu stór sem gróðurþekjan var getum við ekki litið fram hjá því að það vantar 50% gróður (hitt jöklar, sandar, vötn, ár og klettafjöll. fl.)

En málið er, að  ég er á móti beingreiðslum sem verða til þess að ég verð þátttakandi í ofbeit á öllum viðkvæmum stöðum landsins. Ég vil friða svæðin. Sum gróa upp, önnur ekki. Þeim verður að hjálpa.

Og mundu......hér erum við að tala um þessar 25% sem eftir eru, hvað svo sem  sem var mikiið í upphafi. Við erum að tala um að friða viss svæði af þessum 25%, ekki allt, bara viðkvæma afrétti, brattar hlíðar og allt kjarr sem eftir er.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 25.7.2007 kl. 11:49

11 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Haukur Dór!

Var að lesa yfir grein Önnu og hún sannar bara að þegar féi fækkaði jókst gróður og sum sár greru. Hækkandi hitastig hjálpaði til. Minni beit, hækkandi hitastig og fræmyndun. Fræin í rofin og sum greru. Og ég segi, að þegar féi fækkar enn meira eykst gróður og þegar viss svæði hafa verið friðuð, lagast sum en önnur ekki nema með aðstoð.

Tegundaukning eða tegundafækkun slær mig ekkert út af laginu. Við skulum líta til Vestfjarða og Héðinsfjarðar og allra þessara staða sem nefndir voru. Um tíma hefur tegunum fjölgað, síðan fækkað og loks er komið á jafnvægi. Það tekur mörg ár.

Ég er á svæði sem hefur verið friðað í 23 ár og þar kemur sinan ekki að sök. Blómplönturnar ná sér upp úr henni og er blágresið sérstakt augnayndi. Hrútaber og jarðarber fyrir utan flestar íslenskar tegundir. Á snauðum svæðum vex blóðberg og fleiri þurftarlitlar tegundir.  Ég er ekki alveg sammála Önnu með hross og víði. Það getur blessast en stundum ekki.

 Fyrir nokkrum árum var girt af svæði þar sem víðir hafði náð sér upp, eftir minnkandi beit. Þetta svæði var ætlað hrossum í eina nótt. Eftir nóttina var allur víðir horfinn. Ég hef ekki komið á svæðið í fjögur ár svo ég veit ekki hvort hann hefur náð sér. En hross éta víði ef þörf krefur.

Anna talar um aflagðan engjaslátt. Faðir minn sló engi í gamla daga, en nú eru mörg ár síðan þau voru slegin. Á riðuveikisárunum þaut víðir upp og hann var orðinn svo hár er beit hófst á ný að kindunum hefur ekki teksit að éta stærstu brúskana. En þeir minni hurfu á fyrsta sumri.

Mér finnst góð hugmynd að beita þegar fólki finnst botngróður of mikill og friða önnur svæði þegar gróðri hefur farið það mikið aftur að alls konar rof eru komin í hann. Þða þarf bara að stjórna þessu.

Lúpínur já. Því ekki að fara með einn rollufarm í "lúpínusláttinn" (beit) í þrjú sumur í staðinn fyrir að láta slá svæðið með orfi? Ég legg það bara til.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 25.7.2007 kl. 13:04

12 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Haukur Dór!

Þú ert nú bara búinn að lesa eina grein og rangtúlka hana. Vertu nú duglegur fram á haust að lesa, því ég bara hef ekki tíma til að ræða við fólk sem segir mig ljúga.

Ég vil svo að endingu ítreka það ,að allt sem ég hef sagt hér  er fyrst og fremst mín skoðun sem ég ber fulla ábyrgð á. Hún er fyrst og fremst mótuð af ferðum um landið vítt og breitt og tölur og  fróðleik hef ég fengið að láni úr greinum og bókum.

Eins og þú sérð þegar þú ferð að lesa eitthvað af ráði , þá er ég ekki að fara með nein ósannindi.

Reyndu svo að venja þig af því að fordæma fólk, það gæti komið sér vel í kennslu. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 25.7.2007 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband