Færsluflokkur: Bloggar
25.7.2007 | 14:41
Ég fer í fríið.............fer í fríið.
Sælt veri fólkið!
Ég hef nú prófað þennan miðil frá 10. júlí og líkar að mörgu leyti vel við hann. Hér skiptast menn grimmt á skoðunum og er það bara gaman þegar einhver fróðleikur flýtur með, menn málefnalegir og um fram allt..........að maður hafi nægan tíma. Og gott að geta komið sínum málsstað að í hvert skipti sem ég svara. En þetta hefur verið of tímafrekt. Allur minn litli frítími frá vinnu fer í bloggvinnu. Hætt að hafa tíma fyrir fjölskyldu og vini, að ég nú tali ekki um garðinn.
Þess vegna hef ég nú ákveðið að draga mig í hlé frá störfum a.m.k. fram á haust. Ég mun þó skrifa í dagblöð á meðan, ef mér finnst ég þurfa. Það er líka betra fyrir mig, því þá get ég dregið andann, áður en mér er hugsanlega svarað, sem þó hefur lítið verið í seinni tíð. Ekki svaraverð?
Vona ég jafnframt að allir þessir ofurhugar sem gagnrýnt hafa mig hér geri það líka í dagblöðum. Það eru jú mun fleiri sem sjá skrif okkar þar en hér. Þetta er of tímafrekt fyrir svona fáa lesendur.
Vona svo að við öll njótum okkar fagra lands, hvort sem við erum ánægð með núverandi ástand þess eða ekki.
Bestu kveðjur og þakkir fyrir þátttökuna.
Margrét Jónsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2007 | 19:37
Ísland er sýnishorn dómsdags
Sýnishorn úr fjölmiðlum.
DV 4.8. 2005
Búseta mannsins í landinu hefur á löngum tíma valdið mikilli landeyðingu. Fyrir landnám voru eldgos og hraunflóð að verki, en samt var allt gróið upp til fjalla.
Eftir landnám hefur skógur verið brenndur og sauðfé sigað á hann. Síðan hefur vindurinn náð tökum á lággróðri og feykt honum burt og loks moldinni líka. Þannig þekkjum við rofabörðin.
Þetta eru ekki nýjar fréttir. En í gærmorgun var sagt frá þeim í BBC. Þar talar Boris Masimov meðal annars við Andrés Arnalds hjá Landgræðslunni um Ísland, stærstu eyðimörk í Evrópu.
Ísland er sýnishorn dómsdags, segir Andrés í viðtalinu. Ísland sýnir hvernig getur farið fyrir öðrum löndum, ef menn ganga á skóga og ofbeita land. Ísland er víti til varnaðar.
BBC segir að eyðing lands á Íslandi sé ótrúlega mikil og að sandurinn sé fínlegri en annar eyðisandur á jörðinni, jafn fínlegur og sandurinn á tunglinu. Þannig varð Ísland leikvöllur tunglfara.
Menn halda að Ísland eigi að vera svart. En rannsóknir sýna, að láglendi var allt gróið fyrir komu landnámsmanna, Kjölur var algróinn og hægt var að fara á gróðri yfir Sprengisand utan 20 kílómetra á hápunkti.
Við vissum þetta allt. En þegara BBC segir það fær það aukið vægi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.7.2007 | 10:53
Að lesa landið
Sælt veri fólkið!
Ég hef, samkvæmt beiðni frá lesendum, verið að tína til lesefni sem komið gæti að gagni við að komast að því hversu alvarlegt ástand gróðurhulu landsins er. Þeir vilja sem sagt sönnunargögn fyrir staðhæfingum mínum. Hér kemur enn ein ábendingin.
Lítil bók sem heitir "Að lesa landið" eftir Ólaf Arnalds. Tek hér smá klausu úr inngangi hennar. Þar segir m.a. " Ástand íslenskra vistkerfa er víða bágborið. Landkostum hefur hnignað og geigvænlegt jarðvegsrof á sér stað. Afleiðingin er m.a. víðáttumiklar auðnir, sem eru einsdæmi í heiminum miðað við það loftslag sem er í landinu."
Þar segir líka í ávarpi frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrverandi forseta m.a. "Við teljum sjálfsagt að allir kunni að lesa á bók. En við þurfum ekki síður að kunna að lesa landið. Að vísu eru ummerki um hnignun landgæða víða augljós, en annars staðar eru þau dulin ólæsum augum."
Þessi bók kennir okkur sem sagt að lesa landið. Skilja hvað er eðlilegt og hvað óeðlilegt ástand gróðurþekjunnar sem eftir er. Þessi bók er svo handhæg og góð að hún ætti heima í öllum skólum landsins, frá fyrsta bekk upp í háskóla. Ég legg til að öll stórfyrirtæki landsins gefi hana í jólagjöf á næstu jólum eða seinna. Sjálfsagt þyrfti að panta hana í tíma til að tryggja að nógu mörg eintök væru til staðar.
Ef ég hangi eitthvað lengur hér á netgreinum mun ég finna fleiri rit eða ritgerðir að glugga í.
Bestu kveðjur,
Margrét
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2007 | 11:38
Þankar um lélegan lesskilning eða vísvitandi ósannindi
Sælt veri fólkið!
Síðan ég lenti hér alveg óvart inn á "netgreinum" hef ég orðið margs vísari um viðhorf fólks til núverandi ástands gróðurs á landinu okkar. Flestir sem hér hafa tjáð sig eru mjög eða nokkuð ánægðir með það en nokkrir alls ekki. Látum það vera, það er allt í lagi að fólk sé ekki endilega sammála um allt. Hitt er verra, þegar ég er skömmuð fyrir "ranga" skoðun, sem ég ætti að skammast mín fyrir að tjá mig um, en þó öllu verst þegar menn annað hvort lesa vitlaust eða rangtúlka skrif mín viljandi , máli sínu til stuðnings. Þarna er ég sem sagt að tala um lygina. Óviljandi (lélegur lesskilningur) eða viljandi (ósannindi). Ekki skal ég dæma um það.
En málið er að tvær konur hafa valið að hörfa undan héðan úr minni umræðu um ástandið og hafið umræður á sínum bloggum, því þar hafa þær sína áhangendur sem eru flestir á sömu skoðun og þær. Þar sem ég á fullt í fangi með að svara fyrir mig hér, (vegna vinnu minnar sem aðstoðarmaður húsamálara, ha, ha,) ætla ég ekki að svara á mörgum bloggum fyrir skrif mín, en gera það bara hér, á mínu bloggi. Hér sem sagt koma athugasemdir við alvarlega röngum upplýsingum sem þær gefa á sínum bloggum um mín skrif.
Renata (reni) nokkur gerir athugasemd á sínu bloggi, við mínu bloggi. Þar er allt ranglega eftir mér haft, þó keyrir um þverbak er Ragnhildur nokkur (kolgríma) tekur undir og segir að hjá mér komi fram "algjört virðingarleysi fyrir náttúrunni, sem sé ekki nema von hjá manneskju sem líti á Ara og Sæmund hina fróðu, Njál og Snorra, sem algjöra vitleysinga sem kunni ekki einu sinni prósentureikning eins vel og hún. Og svona fólki eigi að treysta fyrir íslensku flórunni." Rökin eru sem sagt þau að þar sem ég trúi ekki orðum gömlu mannanna sé ég ekki hæf til að passa upp á íslensku flóruna. (Treysta fyrir/gæta/passa.)
Renata bætir svo við að ég " sé svo afskaplega "fróð" og segi alla bændastéttina á Íslandi ekki kunna til verka".
Og hvað hafa dömurnar svo fyrir sér í þessum staðhæfingum? Jú.......þetta:Ragnhildur hefur lesið spurningar frá Sigrúnu Jónu, þar sem hún spyr hvort ég hafi verið uppi á Landnámsöld og hvort ég haldi að allt sé dagsatt sem standi í Íslendingasögunum, eða bara bókum yfirleitt. Ég sagðist náttúrulega ekki þurfa að svara þeirri fyrri en þeirri seinni svaraði ég neitandi. Sem þýðir einfaldlega það að ég tryði ekki að allt væri dagsatt (sumt en ekki allt). Ekki nokkur maður nefndur á nafn, svo Ragnhildur er að fara með ósannindi, máli sínu til stuðnings. Sama gerir Renata. Finn reyndar ekki neitt á mínu bloggi sem gæti útskýrt þessa túlkun hennar á skrifum mínum.
Ég skil ekki hvaða tilgangi svona málflutningur á að þjóna.
Svo vonast ég eftir málefnalegri umræðu í framtíðinni, en ekki útúrsnúningum og rangtúlkunum á því sem ég hef látið á prent. Þið megið hafa ykkar skoðun á málum, þó ég sé ekki á sama máli, heldur reyni að koma með eitthvert mótsvar. T.D. var birting mín á "Lúpínugreininni" mótsvar við endurteknum ofsóknum (nornaveiðum) sem nú eru í umræðunni, gegn svokölluðum "útlendum" plöntum sem sumar hverjar hafa lifað lengur í landinu en elstu menn í dag. (T.d. Furulundurinn á Þingvöllum.)
Bestu kveðjur,
Margrét
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.7.2007 | 12:12
Nornaveiðar hafnar á ný gegn "útlendingum" í íslensku flórunni
Þessa grein skrifaði ég 2004 og er hún enn í fullu gildi
Til varnar lupinus nootkatensis og fleiri útlendingum
Þann 6.7. 2004 skrifar Hjörleifur Guttormsson grein í blaðið þar sem hann veltir fyrir sér seinagangi á að framfylgja lögum um verndun íslenskra vistkerfa fyrir innflutningi á erlendum lífverum.Lítum á gróðurinn. Hvers konar vistkerfi á að vernda?- Vistkerfi eins og það var við landnám, þegar gróður þakti 75% af landinu og skógur um 30- 40% af gróðurhulunni?
- Eða vistkerfi eins og það er í dag, þegar gróðurhulan er aðeins 25 % af því og skógur um 1%-2% af gróðurhulunni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.7.2007 | 06:06
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir
Góðan dag gott fólk!
Eins og sjá má er komin mynd á forsíðu mína. Hana tók Harpa Fönn Sigurjónsdóttir á Eyvindarstaðaheiði þann 13.7. 2007
Fleiri myndir frá henni munu fylgja í kjölfarið. Þær eiga það allar sameiginlegt að sýna hið sorglega ástand á þessum afrétti, sem er bara einn af fleiri álíka. Sýna sannleikann um bágborið ástandið á okkar fögru fósturjörð. Þetta eru gróðurleifar sem sýna að einu sinni var þarna heil gróðurþekja.
Ég þakka henni kærlega fyrir góðfúslegt leyfi fyrir að fá að sýna þessar myndir.
Bestu kveðjur,
Margrét
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.7.2007 | 21:07
Eldri greinar, fyrsta vers
Já, alltaf er hann Guðni Ágústsson að afsaka fjárútlát þessarar skattpíndu þjóðar til landbúnaðarins. Nú síðast í Blaðinu í dag, 4.11. 2006
Í þessari grein hældist hann yfir för sinni og fleiri manna til Bandaríkjanna (á okkar kostnað), og dásemdum íslenskra landúnaðarafurða, þar í búð. Ég hef svo sem ekkert út á gæði þessara vara að setja, nota sjálf ekki mjólkurafurðir lengur (svona 98%) af ótta við hið kröftuga vaxtarhormón, sem ég trúi að auki líka vöxt krabbameinsfruma, en borða lambakjötið af og til, þó æ sjaldnar eftir að ég tók upp nýja stefnu í matarvali. En það sem ég sé eftir, er að vera að fórna okkar fátæklega háfjallagróðri í kjötframleiðslu til útflutnings í stórum stíl. Hvað með þessa útlendinga sem vilja hafa allt upp á borðinu í sambandi við framleiðsluna; dýravernd, hreinleika og fleira? Hvað með GRÓÐURVERND? Myndu þeir ekki missa matarlystina á kjötinu því arna, þessir réttlætismenn guðs í henni Ameríku, ef þeirr vissu hverju við værum að fórna? Ha? Ég segi, hingað og ekki lengra. Það er miklu meira en nóg að framleiða kindakjöt ofan í okkur og gesti okkar og ekki skrokk til viðbótar...................nema hann komi úr beitarhólfi.
Þá að kúnum. GÁ dásamar afurðirnar þeirra, sérstaklega litinn á smjörinu, hann sé svo flottur. Auk þess miklast hann yfir verði á skyri í fínu búðinni (sjálfsagt flutningskostnaður, tollar, aðflutningsgjöld og skattar), í samanburði við það sem við borgum hér. Hrædd er ég um, að það háa verð skili sér nú ekki til bænda hér og sá góði maður gleymir að við höfum borgað okkar skyr tvisvar. Fyrst með beingreiðslum og svo við búðarborðið. Ekki þekki ég til verksmiðjukúa, GÁ lætur í veðri vaka að þær éti hvorki gras né hey, en ég veit að allar aðrar kýr í heiminum bíta gras eins og þær íslensku og það mikið, mikið lengur á ári, vegna hagstæðs veðurs. Og þær fá að sjálfsögðu hey yfir köldustu vetrarmánuðina, bara miklu, miklu skemur en þær íslensku. Líka kornfóður, eins og íslensku kýrnar. Útlenskt og eitrað, eins og sumir segja.
Það að basla enn við að reyna að selja þessar blessaðar landbúnaðarvörur til útlanda er ekkert nema kostnaður fyir skattgreiðendur og ég hef aldrei heyrt að bændur hafi grætt á þessu.
Nei, nú er komið nóg af óþarfa fjárútlátum í kindur og kýr. Snúum okkur heldur að því að nota peningana í afmælisgjöf til Landgræðslunnar á næsta ári, þega hún fagnar 100 ára afmæli. Allir landsmenn myndu græða á því , ekki hvað síst, bændur.
Margrét Jónsdóttir
Aðstoðarmaður húsamálara
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.7.2007 | 20:42
Eldri greinar
Góðir Íslendingar!
Ég hef ritað margt um eyðimörkina Ísland. Flest hef ég birt í dagblöðum en annað ekki. Þar sem ég hef ekki haldið úrklippum til haga hef ég ekki hugmynd um hvað er birt og hvað ekki. Og þar sem ég tel þetta "góðar vísur" og sígilt efni, ætla ég að birta þær hér á blogginu, smátt og smátt. Ekkert kerfi verður í gangi, sendi bara það sem er efst á blaði í safninu mínu númer tvö og saxa svo á listann. Þegar safn númer tvö er búið fer ég yfir í enn eldri greinar og geng þar á röðina. Annað kvöld mun sú fyrsta birtast.
Góðar stundir,
Margrét
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2007 | 11:26
Við þessum spurningum í vor, komu engin svör
Nú er enn einn styrkurinn til sauðfjárbænda í höfn. Enn eitt óréttlætið. Og ekki bara óréttlæti að hygla svona að einni stétt atvinnurekenda, heldur líka það, að við erum jafnframt að BORGA með áframhaldandi OFBEIT á fátæklegum gróðri landsins. Og hver er svo afsökunin? Jú, að aðrar þjóðir borgi líka með sínum landbúnaði. En ekki er nefnt að það er hjá langflestum þjóðum aðeins bara brotabrot af þeirri upphæð sem við borgum með okkar óskynsamlegu kjötframleiðslu. Auk þess segir landbúnaðarráðherrann að allir Íslendingar séu sáttir við þetta, því lömbin séu svo krúttleg á vorin og svo sé svo gasalega gaman í göngum og réttum á haustin. Þvílík aulafyndni. Og hvað gerum við? Jú drepumst úr hlátri fyrir framan sjónvarpið og segjum, ó Guð, hann Guðni er svo skemmtilegur, hann er eins og besti trúður, við verðum að fá hann sem skemmtikraft á næsta þorrabóti. Svo gleymum við þessu, því við erum svo vön að láta valta yfir okkur. Og hvað munar okkur svo sem um nokkra skitna milljarða í viðbót til að þessir ræflar af gróðri sem eftir eru á afréttum hverfi með öllu er fram líða stundir.
Fyrverandi forseti, frú Vigdís Finnbogadóttir, hefur miklar áhyggjur af dómi afkomenda okkar í framtíðinni, ÞEGAR við VERÐUM búin að skera landið út og suður með veituskurðum. Þessi ágæta kona skal bara vita það að við erum nú þegar með dóminn á bakinu. Við erum fyrir löngu búin að eyðileggja landið. Fyrir utan allar hinar sundurskornu jarðir bænda þvers og kruss um landið er gróðurinn sem einu sinni þakti það, nú bæði lítill og gauðrifinn. Þetta okkar svokallaða ósnortna og óspillta land sem er svo einstakt í okkar blindu augum, var þegar orðin stærsta manngerða eyðimörk í Evrópu fyrir 100 árum. Og ástandið versnar stöðugt þrátt fyrir mikinn dugnað Landgræðslunnar í hinni vonlitlu baráttu við eyðimörkina í þessa heilu öld sem liðin er síðan þá.
Nú langar mig til að leggja nokkrar spurningar fyrir stjórnmálamenn sem vonast eftir atkvæði mínu í vor.
- Hefur flokkur ykkar kynnt sér ástand gróðurs í landinu?
- Hefur hann áhyggjur af því að við landnám þakti gróður um 75% af landinu en núna aðeins um 25%?
- Veit flokkurinn að þessar 25% eru gatslitnar? Aðeins um 4-5% eru alveg heilar. Engar áhyggjur?
- Segjum að flokkurinn hafi áhyggjur af þessari stærstu manngerðu eyðimörk í heimi, hvað hyggst hann gera til að endurheimta horfinn gróður og jarðveg? Ég veit ALLT um það hvað gert er í dag, en það er einfaldlega allt of lítið og sumt kolrangt (óheft beit um allt land).
- Hefur flokkurinn heyrt talað um beitarhólf?
- Hefur flokkurinn hugleitt að friða allt kjarr sem eftir er í landinu?
- Hefur flokknum aldrei dottið í hug að afnema þessar óréttlátu beingreiðslur en nota heldur peningina í eitthvað annað, svo sem eins og enn meiri stuðning við uppgræðslu á nöktum heimamelum, enn meiri skógrækt , enn meiri landgræðslu í eyðimörkum, til að fylla upp í skurði, eða í girðingar fyrir beitarhólf? Eða bara jafnvel í tvöföldun vega? Það mundi jú vernda lífið á landsbyggðinni, ekki satt?
- Finnst flokknum eðlilegt að mismuna svona atvinnurekendum í landinu?
- Ef flokkurinn kemst í stjórn á næsta kjörtímabili, hvað ætlar hann að gefa Landgræðslunni í 100 ára afmælisgjöf?
Kæru landsmenn! Vaknið nú upp af ykkar þyrnirósarsvefni og skoðið landið okkar í nýju ljósi. Eruð þið sáttir við allar þessar eyðimerkur, allan þennan jarðveg sem fýkur árlega út í hafsauga, alla þessa hálfberu mela og alla þessa sundurtættu gróðurhulu?
Ef þið látið ekki í ykkur heyra verða engar breytingar til batnaðar.
Margrét Jónsdóttir
Aðstoðarmaður húsamálara
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sérfræðingar okkar hafa nú hver á fætur öðrum látið í sér heyra í fjölmiðlum í dag og loks fær fólk heyrnina. Það er svo aldeilis hissa og undrandi. Hefur bara ekki heyrt annað eins. Þó höfum við Herdís Þorvaldsdóttir og fleiri verið óþreytt við að upplýsa landsmenn undanfarin ár um alvarlegt ástand gróðurs og jarðvegs. Nokkrir fræðimenn hafa líka látið í sér heyra en þeir eiga það allir sameiginlegt að tala varlega til að styggja ekki bændur. En ég fagna því sem sagt að þeir hafa látið í sér heyra í dag. Þá er líka von til þess að stjórnmálamenn fari að "tengja".
Ég spyr: Er nú ekki akkúrat tími til kominn að hætta þessum beingreiðslum sem engu þjóna nema viðhalda ofbeit; í þessu litla kjarri sem eftir er í gróðurleifum snarbrattra hlíða og á afar illa förnum afréttum? Hvað um þessar grænu greiðslur? Eru þær ekki einmitt til þess fallnar að koma bændum úr sjálfheldunni, með því að hjálpa þeim við að koma upp beitarhólfum svo og að kenna þeim að nota þau af einhverju viti...sem flestir hestaeigendur virðast ekki kunna. Og svo þurfum við að hugsa stórt í sambandi við 100 ára afmæli Landgræðslunnar.
Ef svona heldur áfram sem nú horfir er næsta víst að öll okkar gróðurmold verður fokin út í veður og vind áður en nokkur veit af.
Kæru landsmenn! Nú er tími til kominn að vakna af ykkar djúpa Þyrnirósarsvefni. Nú eða aldrei.
Annað. Hún er makalaus þessi tíska. Undanfarin misseri hafa hinir svokölluðu "náttúruverndarsinnar" barist með kjafti og klóm gegn virkjunum og álverum en nú hafa hinir sömu tekið upp nýja siði. Nefnilega að gróðursetja trjáplöntur til að koma til móts við "útblástur bifreiða" en ekki til að "endurheimta gróðurþekju landsins". Tja, það er margt skrýtið í kýrhausnum. En það er sama hvaðan gott kemur. Þetta er góð viðbót til að bæta götótt klæði fjallkonunnar.
MARGRÉT JÓNSDÓTTIR,
Melteigi 4, Akranesi.
Margrét Jónsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (65)