Eigum við enn að borga með gróður- og jarðvegseyðingu?

OG ENN fýkur gróðurmoldin út í hafsauga. Í annað sinn í júnímánuði fjúka hundruð þúsundir tonna af jarðvegi út í hafsauga. Hvers vegna? Jú, reyndar er hlýnun jarðar og uppþornaðri tjörn á hálendi um kennt en staðreyndin er sú að orsökin er að við erum enn við sama heygarðshornið og áður, nefnilega að beita stöðugt illa farna afrétti þessa lands og það "í boði skattborgara Íslands". Hversu lengi á þetta að ganga enn?

Sérfræðingar okkar hafa nú hver á fætur öðrum látið í sér heyra í fjölmiðlum í dag og loks fær fólk heyrnina. Það er svo aldeilis hissa og undrandi. Hefur bara ekki heyrt annað eins. Þó höfum við Herdís Þorvaldsdóttir og fleiri verið óþreytt við að upplýsa landsmenn undanfarin ár um alvarlegt ástand gróðurs og jarðvegs. Nokkrir fræðimenn hafa líka látið í sér heyra en þeir eiga það allir sameiginlegt að tala varlega til að styggja ekki bændur. En ég fagna því sem sagt að þeir hafa látið í sér heyra í dag. Þá er líka von til þess að stjórnmálamenn fari að "tengja".

Ég spyr: Er nú ekki akkúrat tími til kominn að hætta þessum beingreiðslum sem engu þjóna nema viðhalda ofbeit; í þessu litla kjarri sem eftir er í gróðurleifum snarbrattra hlíða og á afar illa förnum afréttum? Hvað um þessar grænu greiðslur? Eru þær ekki einmitt til þess fallnar að koma bændum úr sjálfheldunni, með því að hjálpa þeim við að koma upp beitarhólfum svo og að kenna þeim að nota þau af einhverju viti...sem flestir hestaeigendur virðast ekki kunna. Og svo þurfum við að hugsa stórt í sambandi við 100 ára afmæli Landgræðslunnar.

Ef svona heldur áfram sem nú horfir er næsta víst að öll okkar gróðurmold verður fokin út í veður og vind áður en nokkur veit af.

Kæru landsmenn! Nú er tími til kominn að vakna af ykkar djúpa Þyrnirósarsvefni. Nú eða aldrei.

Annað. Hún er makalaus þessi tíska. Undanfarin misseri hafa hinir svokölluðu "náttúruverndarsinnar" barist með kjafti og klóm gegn virkjunum og álverum en nú hafa hinir sömu tekið upp nýja siði. Nefnilega að gróðursetja trjáplöntur til að koma til móts við "útblástur bifreiða" en ekki til að "endurheimta gróðurþekju landsins". Tja, það er margt skrýtið í kýrhausnum. En það er sama hvaðan gott kemur. Þetta er góð viðbót til að bæta götótt klæði fjallkonunnar.

MARGRÉT JÓNSDÓTTIR,

Melteigi 4, Akranesi.

Margrét Jónsdóttir


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þá má nú segja að þú og vinkona þín hún Herdís Þorvaldsdóttir hafið verið duglegar við að útbreiða tóma þvælu.  Það hefur mátt lesa úr skrifum ykkar að þið hafið ekki farið mikið um Ísland nýverið.  Fyrir einum 20 árum síðan var ofbeit vandamál á mjög afmörkuðum svæðum á landinu, á því var tekið og landgræðsla efld til muna.  Ég vil biðja þig og aðra þá sem virðast lifa í fortíðinni að kynna ykkur gróðurfar Íslands eins og það er í dag og hætta að skrifa þessar vitleysu greinar í blöðin og nú greinilega á netinu líka.  Að halda því fram að Ísland sé einhver gróðurlaus auðn er hrein og klár fjarstæða, hvað þá heldur að auðnir hálendisins séu ofbeit að kenna, ja maður á bara ekki til orð til að lýsa því hversu fjarstæðukennt og vitlaust þetta er!!! 

H. Vilberg (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 21:18

2 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Góðan dag H. Vilberg!

Á ég að trúa því að þú sért sáttur við ástand gróðurhulu landsins í dag? Veistu ekki að við landnám þakti gróður um 75% af landinu? Hvernig er ástandið í dag? Jú nú er gróðurhulan um 25% af því, þar af um 4- 5% heil gróurhula en allt hitt rofið meira og minna. Getur nokkur Íslendingur verið sáttur við þetta ástand, þó svo það sé kannski skárra en fyrir 20 árum? Ég bara trúi því ekki.

Ég hef aldrei kennt kindinni einni um ástandið, heldur allri notkun mannsins, svo og náttúruöflunum. En málið er að þó svo að kindin hafi hingað til haft forgang að öllum gróðri landsins gengur það ekki lengur.  Þú veist að hér er ein stærsta manngerða eyðimörk jarðar, ekki satt? Mæli með að þú lesir svo sem eina bók um ástandið, t.d. bókina "Jarðvegsrof á Íslandi". Seinna skal ég vísa þér á fleiri bækur.

Ég hef ferðast mikið vítt og breitt um landið og það ergir mig æ meira að upplifa hversu illa er farið með það. Ekki bara allt þetta rof sem maður sér, heldur líka allt draslið alls staðar, bæði í sveitum og bæjum svo og höfuðborginni okkar. Við erum bara umhverfissóðar, því miður.

Bestu kveðjur, Margrét

Margrét Jónsdóttir, 11.7.2007 kl. 09:49

3 Smámynd: Magnús Þór Snorrason

Ég er sammála þér H,Vilberg,það er með ólíkindum að nokkur viti borin manneskja skuli láta aðra eins vitleisu út úr sér eða rita!

Magnús Þór Snorrason, 12.7.2007 kl. 02:41

4 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Góðan dag Magnús Þór!

Það er heldur "gáfulegt" innleggið þitt í umræðuna og afskaplega vel "rökfært". Ég er mjög forvitin að fá að vita í hverju "vitleysan" er fólgin, því ég kem ekki auga á hana? Nú vil ég leggja fyrir þig nokkrar spurningar sem ég vona að þú svarir.

1. Er það rangt að við landnám hafi gróður þakið landið sem nemur um 75%?

2. Er það rangt að nú þekur gróðurinn aðeins um 25% af yfirborði þess?

3. Er það rangt að megnið af þeim gróðri er rofinn ?

4. Er það réttlátt að íslenksa þjóðin þurfi að borga með bændum og þar með taka þátt í óþarfa afbeit á öllum viðkvæmum svæðum landsins?

5. Er það rangt að árlega fjúka hundruðþúsundir tonna af jarðvegsefnum á haf út?

6. Er það rangt að búseta mannsins, þ.e.a.s. beit og skógarhögg eru frumorsök gróðureyðingar?

7. Er það réttlátt að kindin ein hafi einkarétt á að éta allan gróður á afréttum? Hvað með plönturnar sem þar kúra við grasrót, eiga þær engan rétt á að fá að vaxa og dafna? Hér á ég við birki, víði og ótal blómtegundir.

Ég gæti lagt fyrir þig margar spurningar í viðbót en læt þessar nægja að sinni.  Svo vona ég eftir málefnalegu innleggi frá þér í framtíðinni en ekki eftir svona vindhöggum út í loftið. Ég bara skora á þig að svara spurningum mínum og það í alvöru og af fullu viti.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 07:53

5 Smámynd: Einar Þór Strand

Margrét

Þó að einhverstaðar sé uppblástur núna þá var það líka á landnámsöld, og vertu bara glöð því hófleg beit er talin frekar hjálpa gróðri og það fer hlýnandi en eins og þú veist þá eigum við eftir ca 0,2 - 0,5 °C í að ná besta meðal árshita landnámsaldar.  Og aðalorsök gróðureyðingarinniar hér á landi var kuldi upp úr 1300 og síðan enn meiri kuldi upp úr 1700.

Einar Þór Strand, 12.7.2007 kl. 08:16

6 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Komdu sæll Einar Þór!

Ertu virkilega að meina að við eigum  bara að vera sátt við núverandi ástand gróðurs eða gróðurleysis á Íslandi, þar sem veður fari jú hlýnandi? Bara sætta okkur við uppblástur og eyðimerkur vegna hækkandi hita? Að hitinn lækni öll sár? Eru það þín rök?

Vegna gróðureyðingar af mannavöldum hér á landi, eiga veður og vindar á öllum kuldaskeiðum auðveldara með að fullkomna eyðilegginguna. Og nú, þó svo að sé hlýindaskeið, heldur eyðileggingin áfram, er vindar þeyta þurrum jarðvegsefnum út í hafsauga. Alltaf er það afleiðingin af ofnotkun á okkar viðkvæma gróðri. Og eigum við, skattþegnar þessa lands, að borga með eyðileggingunni í formi beingreiðslna? Nei og aftur nei. Nú er einfaldlega mælirinn fullur og tími til kominn  að fara að friða mörg viðkvæm svæði og koma skepnum í beitarhólf. Notum heldur peningana frá þjóðinni í girðingar um beitarhólf. Við verðum að fara að haga okkur eins og vitibornir menn gagnvart okkar gauðrifnu gróðurleifum.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 09:37

7 Smámynd: Magnús Þór Snorrason

Svör:

1.Ég hreinlega veit það ekki,var ekki uppi á þeim tíma,en,það er talið.

2.Nei,en hverju er um að kenna?

3.Já,það er rangt.

4.Það hefu sýnt sig að þar sem að hefur átt að hefta uppblástur með friðun fyrir sauðfé hefur algerlega misheppnast(þú ættir að kynna þér staðreindir áður en þú ræðst á heila starfsstétt)það er ekkert til sem heitir ofbeit sauðfjár í dag.

5.Það er alls ekki rangt,en aftur hverju er um að kenna?

6.Já það er rangt.frumorsök gróðureyðingar eru 1.veðurfarstengd 2.Skógarhögg landnámsmanna.3.Ofbeit sauðfjár fyrir um 20 árum síðan.

7.Hvað áttu við?Villtu að við förum að hleypa öðrum búfjártegundum á afréttina líka?Hross væru til að mynda mjög heppileg til lausagöngu um afrétti landsins eða hvað ???

Við skulum átta okkur á einu Margrét mín,ENGVIR græða landið betur upp en bændur þanig að þú ert nú svolítið að skjóta þig í fótinn með svona málatilbúningi.

Magnús Þór Snorrason, 12.7.2007 kl. 10:31

8 Smámynd: Eiríkur Rósberg Árelíusson

Þetta er alveg rétt hjá þér. Herdís hefur verið dugleg við að koma þessum skoðunum á framfæri án sýnilegs árangurs, en hafi hún og þú þökk fyrir. Það er nokkuð sérkennilegt í allri þeirri náttúruvendarumræðu sem nú er í tísku að ykkar sjónarmiðum skuli ekki vera haldið meira á lofti. Hvað varðar beingreiðslurnar og verðlag á íslenskum landbúnaðarafurðum þá er það einn þáttur útaf fyrir sig sem er íslenskum neytendum í óhag.

Eiríkur Rósberg Árelíusson, 12.7.2007 kl. 11:30

9 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæll aftur Magnús Þór!

Þú segir það rangt að megnið af gróðurleifum landsins séu rofin. Nú ætla ég að kíkja í eina bók sem heitir "Jarðvegsrof á Íslandi" þar stendur á bls 43 að landið sé 102 721 ferkílómetrar. Þar af séu aðeins á 4000 ferkílómetrum ekkert rof. Það eigi einkum við um ræktað land, skóglendi og votlendi. Þetta er bók margra fræðimanna sem kortlagt hafa ástand landsins eftir margra ára rannsóknarvinnu. Ég mæli með að þú lesir þessa bók.

Flestallir fræðimenn landsins telja orsök gróðureyðingar fyrst og fremst af ofnotkun mannsins. Seinna koma veður og vindar við sögu. Svo ég er ekki ein um þessa skoðun.

Eins og þú sérð ef þú lest betur spurningu 7, þá er ég að tala um gróður en ekki hross. Guð forði okkur frá því að hafa hross á afréttum. Ætla rétt að vona að það sé liðin tíð.

Sammála þér að margir bændur eru orðnir meðvitaðir um lélegt ástand gróðurhulunnar og taka þátt í uppgræðsluverkefnum (sem kostuð eru af ríkinu), í að græða upp sína eigin heimahaga og stundum hluta af afréttarlöndum. Ég er mjög hamingjusöm með það. Það er hagur allra að græða upp landið, hver sem nú flokkast undir það að "eiga" það.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 12:01

10 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Eiríkur Rósberg!

Er búin að senda þér þrjú svarbréf en þau misfarast eitthvðað. Þessi sending er tiraunasending.

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 13:07

11 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Eiríkur Rósberg!

Þá ætla ég að reyna í fjórða sinn. Það ,að svona fáir tjá sig um skoðanir okkar Herdísar og fleiri stafar fyrst og fremst af því að unga fjölmiðlafólkið hefur engar áhyggjur af gróðureyðingu og þar með engan áhuga á að fjalla of mikið um þetta efni.

Sumir okkar stuðningsmenn eru hræddir við að styggja sveitamenn með því að tjá sig opinberlega, vegna fyrri eða núverandi tengsla við sveitina. Eins gott að passa sig. Í mínu tilfelli hef ég mátt þola alls konar hótanir og útskúfun. Er t.d. útlagi úr minni eigin sveit. Og svo ætlar forsetinn okkar að kenna Kínverjum allt um tjáningarfrelsi!

Tala seinna um beingreiðslur.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 13:13

12 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Eiríkur Rósberg!

Margir malarbúar eru, eins og ég, alfarið á móti beingreiðslum sem stuðla að áframhaldandi afbeit á viðkvæmum stöðum og því að viðhalda því að bændur geti lifað því lúxuslífi að búa í sveit, og hefur auk þess margfeldisáhrif á verð jarða.

Beingreiðslur gleymast í verðútreikningi á landbúnaðarvörum og ef þær væru taldar með mundi verðið vera miklu hærra en upp er gefið, enda borgum við hæsta verð í heimi í meðlög með bændum.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 13:58

13 Smámynd: Einar Þór Strand

Margrét

Ásætaðna fyrir gróðureyðingunni var kuldi, núna er að hlýna og þá er bara að bíða róleg meðan gróðurinn er að ná sér alla vega í guðs bænum ekki að fara að hleypa Kolvið og þessháttar fólki í dæmið því það yrði meira umhverfisslys en nokkur beit af mannavöldum.  Þessu bók sem þú vitnar í um að einungis 4000 ferkílómetrar séu á uppblásturs eru sennilega nokkra ára því þetta breytist hratt núna.  Reyndar er uppblástur ekki al vondur því þegar jarðvegur verður of þykkur þá þarf eitthvað að gerast.

Eins og staðan er í dag er górður mjög að sækja á um allt land enda skilyrði fyrir hann orðin mun betri en voru þannig að nú er kominn tími á að hætta að skamma bændur sauðkindina en kannski á að skoða hesta og hestamenn betur.

Einar Þór Strand, 12.7.2007 kl. 18:07

14 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Einar Þór!

Það er klárt mál að ekki erum við sammála um orsök gróðureyðingar og nær það þá bara ekkert lengra.

Breytingar á gróðurfari til hins betra eru mjög hægfara, reyndar að mínu mati alltof hægfara. Tökum sem dæmi Landgræðsluna sem á 100 ára afmæli um þessar mundir. Henni hefur tekist á þessari heilu öld að endurheimta rétt um 1% af fyrri gróðurþekju. Það sem er verið að gera þessi árin með bændum og öðru landgræðslufólki bætir kannski broti úr prósentu við. Ef við erum mjög bjartsýn þá er hugsanlegt að talan nái upp undir 2%, ekki meira. Þetta er einfaldlega of lítið. Við verðum að gera miklu betur og byrjunin er að friða  öll viðkvæm svæði. Af nógu er að taka. Við eigum ekki að sætta okkur við neitt lágmark í þessari stærstu manngerðu eyðimörk í heimi.

Tökum hestana seinna fyrir.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 18:31

15 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Einar Þór!

Þá eru það hestarnir. Það er vitað mál að opinber tala um hestaeign landsmanna er alltof lág, enda hefur talning ekki átt sér stað í mörg ár. Hestar á viðkvæmum svæðum eru eins og tætarar og gefur augaleið að fáir menn sem reka 100 hesta stóð , sér til skemmtunar, yfir óbyggðir landsins, skilja eftir sig slóð eyðileggingar. Beitarhólf þeirra eru oft illa farin þótt nægt sé plássið, einungis vegna þess að eigendurnir sjá ekki þegar viss vinsæl dvalarsvæði hestanna eru orðin eitt drulluflag. Ef þeir sæju þetta gætu þeir friðað það með rafmagnsgirðingu meðan það jafnar sig á ný. En þar sem þeir skynja ekki skaðann er ekkert að gert. Þeir kunna nefnilega, sumir hverjir, ekki að stýra beitinni í hólfinu. Já, það er víða pottur brotinn í sambandi mannsins við náttúruna.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 18:45

16 Smámynd:  Valgerður Sigurðardóttir

Í ný útkominni bók sem heitir Íslandssaga í máli og myndum er talið að útbreiðsla skóga við landnám hafi verið 8 þúsund ferkílómetrar en ekki 25 þúsund, á þessu er dálítill munur. Ég veit að þessar tölur eru dregnar í efa.

Sé að þú ert komin á fullt

Valgerður Sigurðardóttir, 12.7.2007 kl. 21:54

17 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Gott kvöld Valgerður!

Já, ég hef lesið svona hér og þar um ólíkar tölur í sambandi við stærð skóga á Íslandi við landnám. Reyndar alveg frá 15 til 35% af þáverandi gróðurhulu. En þessi tala er ný. Hvað hafa höfundar fyrir sé í þessum efnum? Ný rannsókn? Ef svo er, hvar kemst maður þá í niðurstöðurnar? Ég þarf annars að fara í kíkja í þessa nýju bók. Þakka þér fyrir ábendinguna.

Já, ég lenti hérna inni alveg óvart. Hafði sjálf ekkert fyrir því. Ætla samt ekkert að fara að stunda neitt alvöru blogg. Klára alla vega þetta dæmi.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 22:28

18 Smámynd: Magnús Þór Snorrason

Sæl Margrét!

Ég marg grét yfir fáfræði þinni Margrét,

Íslenskir bændur njóta ekki hæstu ríkisframlaga í heimi,eru ekki einu sinni í öðru sæti.

Það er svo augljóst að þú býrð á mölinni því að fáfræði þín á samspili lands og dýra er með ólýkindum og eiginlega ættir þú að skammast þín fyrir að setja svona á vefinn,það er einu sinni svo að þegar þú sáir í rof og friðar það svo alveg fyrir ágangi búfjár þá fýkur bæði fræ og áburður í burtu í næstu golu,það sem að blessuð sauðkindin gerir er að troða niður í jarvegin fræinu og áburðinum og skilur að auki eftir sig lífrænan áburð

Þú heirir ekki talað um ofbeit sauðfjár nema þá í  gömlum ritum,legg til að þú leitir þér upplýsinga hjá ráðunautum búnaðarsambanda þar eru þó menn sem að eru með nýjustu upplýsingar um flest sem að þessu við kemur.

Leggja niður beigreiðsur til bænda og nota þá peninga til að girða beitarhólf!!!!!!!!!!!!ertu ekki með réttu ráði kona,ef beingreiðslur verða lagðar niður þá gerist bara annað af tvennu,búskapur leggst af á Íslandi(þá fer fyrst gróður þekjan að rýrna)eða bændur fjölga hjá sér í bústofninum um helming eða meira og hvað gerist þá???????

Magnús Þór Snorrason, 13.7.2007 kl. 02:05

19 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Góðan og blessaðan daginn Magnús Þór!

Það eru alveg makalaus rök þeirra sem finna vanmátt sinn gagnvart öðru fólki, að kalla það fákunnandi og vitlaust. Skamma það og gera lítið úr. Ég vorkenni þér að þola ekki að aðrir viti betur en þú.

Og þessi ofsatrú þín á kindinni í jarðyrkjustörfum er með ólíkindum, eins og trúarbrögð. Það er von að illa sé komið hér á landi ef allir bændur trúa þessu í raun og veru, að kindin hjálpi til í uppgræðslu! Þar sem ég þekki til hjá henni þá er hún bara skaðvaldur á svoleiðis svæðum (sem og öðrum) og étur allt sem upp úr moldinni kemur.

Ef beingreiðslur verða lagðar niður verður til heilbrigð samkeppni. Þeir gömlu selja sitt (ættu reyndar að vera búnir af því fyrir löngu), svo og margir sem treysta sér ekki í samkeppni og hinir, sem eftir verða, hagræða. Vonandi eignast margir malarbúar þá jörð sem breytt verður í skógrækt, uppgræðslubletti, sumarbústaðahverfi eða annað.

Vita skaltu svo að ég skammast mín ekkert fyrir skoðanir mínar og vitneskju sem ég hef sett hér á vefinn. Ég vil svo benda þér á að kurteisi í mannlegum samskiptum skaðar þig ekki.

Bestu kveðjur,Margrét

Margrét Jónsdóttir, 13.7.2007 kl. 08:46

20 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Magnús Þór!

Ég gleymdi einu. Hvað gerðist á Vestfjörðum er búskapur lagðist af þar? Hvað gerðist í Héðinsfirði er búskapur lagðist af þar? Rýrnaði gróðurþekjan? Hvarf hún?

Nei, ekki var það nú svo. Þar eru nú blómlegustu svæði landsins og ferðafólk flykkist þangað til að njóta hinnar "óspilltu" náttúru sem hefur gróið sára sinna eftir að beit var á bak og burt.

Bestu kveðjur, Margrét

Margrét Jónsdóttir, 13.7.2007 kl. 08:53

21 Smámynd: Magnús Þór Snorrason

Ef að þú telur eyðifirði til blómlegustu svæða landsins þá er nú ekki allt í lagi með toppstykkið, þú fyrirgefur orðbragðið.

Ég held að þú ættir að finna þér einhvern afruglara(sálfræðing)til þess að komast að rótum vandans því að ég trúi því ekki að þetta hatur á bændum sé vegna þess að þú trúir því í alvöru að bændur séu upp til hópa landníðingar og afætur á íslennsku samfélagi,ég held að rætur vandans hljóti að liggja dýpra en það.

PS:

Ef að þú telur færslu þína hér að ofan bera vott um kurteisi í mannlegum samskiptum þá held ég að þú ættir að skoða mínar FYRRI færslur og svo þína hér að ofan og spá svolítið í hvor sýnir meiri kurteisi!!!!!

Það er nú þannig með fólk með veikan málstað og einstrengingslegar skoðanir að það þolir illa rök. Ég hef lokið máli mínu hér á þessum vetvangi.

Magnús Þór Snorrason, 13.7.2007 kl. 14:33

22 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Magnús Þór!

Þú ert enn við sama heygarðshornið varðandi ókurteisina og líklega ekkert við því að gera.

Ég hef nú ekki séð nein rök hjá þér ennþá, þú verður að fyrirgefa. Ég kalla það ekki rök að ausa svívirðingum yfir mína persónu, þvert á móti sýnir það hversu vanmáttugur þú ert í að ræða málin.

Ég hef aldrei sakað bændur í dag fyrir ástand landsins, þvert á móti hef ég margendurtekið að þetta séu afleiðingar þess að við urðum að færa þessa fórn til að geta lifað af á ísaköldu landi. En nú er öldin önnur, ný þekking og nýjir möguleikar. Og tími til kominn að þakka fósturjörðinni og klæða hana nýjum gróðri frá fjöru til fjalls.

Allar upplýsingar mínar eru fengnar frá mér fróðari mönnum, okkar helstu fræðimönnum og fjölmiðlafólki.

Bestu kveðjur og hafðu það gott.

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 13.7.2007 kl. 15:49

23 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Margrét, þú ert að kljást við tvo bændur sem lifa í blindri trú á styrki frá ríkinu. Þegar engin eru rökin og spurningar misskildar er sagt: Þú ert í ljótum sokkum. Hlægilegir menn, Magnús Þór Snorrason og Einar Þór Strand.

Það sér það hver maður að sauðkindin hefur nagað þetta land að rótum og vel það. En þrátt fyrir það virðist enginn „náttúruverndarsinni“ gefa því minnsta gaum. Það segir vitaskuld allt um náttúruverndarsinnana, þeir eru ekki að berjast fyrir vernd náttúrunnar heldur er þetta valdabrölt þeirra sjálfra. Velja málstað sem líklegastur er til að varpa kastljósinu að þeim sjálfum.

Fyrir utan að stórskaða landið er sú samkeppnisvernd sem landbúnaðinum er veitt gríðarlegur kostnaður fyrir neytendur. Við neyðumst til að kaupa annars flokks kjöt á uppsprengdu verði sem og mjólkurvörur. Landbúnaður á Íslandi er því tap, tap, tap. Tap fyrir landið og tap fyrir þjóðina. Þriðja tapið er að aðrar vörur eru seldar á hærra verði vegna áhrifa af okurverði landbúnaðarafurða.

Ef verkalýðsforingjar og stjórnmálamenn þessa lands hefðu raunverulegan áhuga á betri kjörum almennings myndu þeir berjast fyrir afnámi ríkisstuðnings við landbúnaðinn.

Bændur eru öflugur og moldríkur þrýstihópur (einokunarviðbjóðurinn MS t.d.) sem hefur gengið að stuðningi Framsóknarflokksins og ríkisvaldsins vísum og er utan samkeppnislaga og réttar. Nú er Framsókn utan stjórnar og nú er lag. Nú er lag að leiðrétta þessa bölvuðu ónáttúru sem umleikur íslenskan landbúnað, landi og þjóð til miska.

Ég hef lesið greinar þínar Margrét í mörg ár og hef ávallt verið þér hjartanlega sammála. Þeir eru miklu fleiri sem eru sammála þér en þeir sem eru þér ósammála. Þið Herdís eruð hetjur.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 13.7.2007 kl. 23:16

24 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Eitt enn: Ég gleymdi að H. Vilberg er að sjálfsögðu í sama sauðahópi og Magnús Þór og Einar Þór.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 13.7.2007 kl. 23:19

25 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Góðan dag Sigurgeir Orri!

Æ, mikið var gott að vakna upp við svona undirtektir eftir allt sem á undan er gengið. Þakka þér kærlega fyrir stuðninginn og afar þarft innlegg í umræðuna.

Já, eru þeir bændur, mig var farið að gruna það.

Það er verst að nýji landbúnaðarráðherrann hefur lýst því yfir að hann muni engu breyta. Er sáttur við ástandið og beingreiðslurnar.

Ég kíkti inn á bloggið hennar Herdísar í gærkvöldi og voru þá komnar þar nýjar myndir í albúmið sem teknar voru á Eyvindarstaðarheiði, tja, bara núna á dögunum. Þær eru hryllilegar og sorglegar. Sýna allt sem þarf að segja um illa farin afréttarlönd, þar sem kindur eru ENN á beit.

herdisthorvaldsdottir.blog.is vona að þetta sé rétt. Ég skora á alla að kíkja þarna inn.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 14.7.2007 kl. 06:13

26 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég var staddur um þrjá km sunnan Haukadalsheiðar í moldrokinu um daginn. Það var þó ekki svipur hjá sjón miðað við það hvernig moldrokið var fyrir fáeinum áratugum. Þökk sé blessaðri lúpínunni og friðun svæðisins fyrir ágangi sauðfjár. Hef þekkt þetta svæði í hálfa öld og fylgst með jákvæðum breytingum sem orðið hafa.

Takk fyriur góðar og hressilega greinastúfa Margrét.

Bestu kveðjur

Ágúst

Ágúst H Bjarnason, 14.7.2007 kl. 11:47

27 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæll Ágúst!

Já, blessuð lúpínan hefur gert mörg kraftaverkin hér á landi í þessi þessi rúmlega 60 ár sem hún hefur búið hérna. Þökk sé Hákoni Bjarnasyni. Vonandi hefur hún öðlast íslenskan ríkisborgarrétt.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 14.7.2007 kl. 15:25

28 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í landi Hákonar við Hvaleyrarvatn nærri Hafnarfirði voru fyrir rúmlega hálfri öld örfoka grýttir melar, með einstaka grónum torfum sem biðu örlaga sinna, þ.e. uppblásturs.  Rofabörðin voru ljót.  Þarna sáði Hákon lúpínu í melana og blessuð lúpínan var ekki lengi að græða þá upp.

Ég hef fylgst með þessu svæði nánast frá fyrstu dögum landnáms lúpínunnar og tekið eftir því að hún heldur sig við melana, en lætur grasi og lyngi vaxnar torfurnar í friði. Ég skoðaði landið síðast í gær og leyndi það sér ekki. 

Þarna er nú gjörbreytt land. Mikill og fagur skógur, veðursæld og fuglalíf. Lúpínan er búin að vinna sitt verk og víða horfin. Í gær var þar haldið upp á að 100 ár eru liðin frá fæðingu Hákonar í yndislegu veðri.

Ágúst H Bjarnason, 14.7.2007 kl. 21:29

29 identicon

Ég er fædd og uppalin í Borginni. Var í 39 ár bæði sauðfjárbóndi (til 1987 )og svo Garðyrkjubóndi. Komin heim í Borgina mína aftur.

En þvílíka vitleysu sem ég las í þessum pistli þínum Margrét, hélt ég að engin manneskja héldi fram núna. Herdís var dugleg við þetta fyrir nokkrum árum, en það fer lítið fyrir henni núna.

Styrkir til sauðfjárbænda..ja,þvílíkt. Þetta eru styrkir til neytenda, svo lambakjötið verði á viðráðanlegu verði.

Hættu þessu, þú gerir lítið úr sjálfri þér. þetta er svo kolrangt sem þú heldur fram.

Svo tvær spurningar:

Varst þú uppi á Landnámsöld?

Heldurðu að allt sé dagsatt, sem stendur í Íslendingasögunum, eða bara bókum yfirleitt? 

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 17:09

30 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæll Ágúst og þakka þér gott innlegg.

Já, ég hef komið á þetta svæði og finnst mér það algjört augnayndi. Svona mun allt landið verða eftir að öllum skepnum hefur verið komið í beitarhólf og það gróið sára sinna með aðstoð lúpínu.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 15.7.2007 kl. 20:41

31 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæll Guðjón!

Þakka þér bréfið. Ég mun kíkja á þessa vefi sem þú sendir við fyrsta tækifæri.

Já, það væri frábært ef okkur tækist að brauðfæða okkur án þess að ofgera náttúrunni, eins og við erum einmitt að gera í dag.

Nei, því miður veit ég ekkert um rannsóknir á lífrænum íslenskum landbúnaði. Kannski einhver þarna úti geti frætt okkur.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 15.7.2007 kl. 20:47

32 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl Sigrún Jóna!

Það er alveg stórmerkilegt með flestalla bændur (ekki alveg alla) að sé fólk á annari skoðun en þeir þá á það bara að þegja og skammast sín. Og allt sem það segir vitlaust og rangt. Bara steinþegja og hætta að hafa "ranga" skoðun. 

Skoðun ykkar flestra virðist vera að ástand gróðurs hér á landi sé gott í dag og engra nýrra breytinga þörf og svo viljið þið ykkar meðlög áfram frá ríkinu og engar refjar. Gott og vel, ekki ætla ég að banna ykkur að halda þessu á lofti..............þó ég sé alls ekki sammála. Og þar sem ég er ósammála mun ég halda mínu striki. Ég mun berjast áfram fyrir afnámi styrkja til ykkar nema þeir séu tengdir gróðri og girðingarefni í beitarhólf. Ég mun berjast fyrir friðun kjarrs, brattra hlíða og illa farinna afrétta. Einfalt mál.

 En vita skaltu að þá fyrst geri ég lítið úr mér er ég tala svona niður til annarar manneskju eins og þú (og sumir aðrir) tala til mín.

Meira á eftir.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 15.7.2007 kl. 21:15

33 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sigrún Jóna!

Var ekki búin að svara öllum atriðum í bréfi þínu.

1. Það er mikill misskilningur hjá þér að minna heyrist í Herdísi en áður. Þvert á móti hefur hún aldrei verið öflugri í baráttu sinni en þessi síðustu misseri. Kíktu t.d. á bloggið hennar og sjáðu myndir sem hún var að fá af Eyvindarstaðaheiði. Þar eru öll orð óþörf en eins gott að hafa vasaklútinn við höndina því það er sorgleg sjón að sjá. herdisthorvaldsdottir.blog.is

2. Beingreiðslur til að lækka landbúnaðarvörur! (Mitt orðalag.) Ertu ekki bara að grínast? Oftast heyrir maður að þær séu til að "styrkja" búsetu á landsbyggðinni. Jæja, en skoðum þetta nánar. Ef þín staðhæfin er rétt þá er það deginum ljósara að þetta hefur alveg mislukkast því hér á Íslandi greiðum við hæsta matarverð (líka landbúnaðarvörur) a.m.k. í Evrópu.

Meira á eftir.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 15.7.2007 kl. 21:26

34 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sigrún Jóna!

Uppi á landnámsöld!!!!!!!!!!! þarf náttúrulega ekki að svara þessari spurningu en þeirri seinni svara ég neitandi. En rannsóknir íslenskra vísindamanna á sögum, jarðvegi, gróðurfari og fleiru hafa sýnt að hér hefur gróður þakið landið um 75% af því, við landnám, en nú er gróðurhulan ekki nema um 25%, þar af um eða innað við 4% alveg heil gróðurþekja og hitt rofið. Sumt lítið, annað meira og enn annað mikið. Þetta eru staðreyndir og ekkert sem ég hef lesið í Íslendingasögum. Enda efast ég um að þeir hafi kunnað prósentureikning.

En sannleikanum verður hver sárreiðastur. Margir bændur þola ekki að þessum staðreyndum sé haldið á lofti og kalla það bara rangar eða gamlar og vitlausar upplýsingar. Og svo á fólk bara að þegja eða hafa verra af.

Lengi lifi tjáningarfrelsið!

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 15.7.2007 kl. 21:39

35 identicon

Góðan daginn, hann rignir ekkert ennþá.

Borgarbúum og öðrum sem ekki hafa atvinnu sína af því að gróður vaxi og dafni, til mikillar gleði. en hvernig er ástandið hjá gróðri á hálendinu, í öllum þessum þurrki og snjóleysi sl. vetur.

Er kannski ekkert samhengi þarna á milli? 

Svo eitt, sem þú náttúrlega ekki veist neitt um. Ég bjó stóru garðyrkjubúi í Eyjafjarðarsveit, og plantaði á minni jörð nokkrum hundruð þús. (án þess að fá greitt fyrir, eins og skógarbændur fá;einkaframtak, og áhugi á skórækt) skógarplöntum, fyrir utan að sá lúpínum í mela og rofabörð.

Ég ræktaði fleiri hundruð þús skógarplantna, á þessum árum, sem ég bjó þarna og var það til skógarbænda allt frá Borgarfirði til norður Þingeyjarsýslu, fyrir utan að selja sumarhúsaeigendum plöntur.

En tek það fram að skógarbændur og bændur yfirleitt eru mjög meðvitaðir um landið sem þeir hafa umráð yfir.

Ég var bóndi og lifði í bændasamfélagi, og veit þetta frá fyrstu hendi.

Hefur þú lifað á landinu, eða hefur þú alltaf haft þitt lifibrauð af einhverju öðru, sem er auðvitað eins nauðsynlegt og landbúnaður? Tek svo fram, að mín garðyrkja naut engra styrkja. Allavega hefur hún þá farið í annarra vasa.

Ekki mína. 

Lifðu heil og megi hamingjan hossa þér og þínum.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 10:44

36 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl Sigrún Jóna!

Það hefur kannski alveg farið fram hjá þér að borgarbúar stunda líka ræktun eins og sveitamennirnir. Á Reykjavíkursvæðinu er t.d. stærsti skógur á Íslandi. Svo borgarbúar þurfa líka vætu eins og aðrir ræktendur.

Já, það er líka snjóleysi og þurrkar í öðrum löndum, en kemur ekki að sök alls staðar, því gróðurhulan er þykk og þolir smá áföll. Aftur á móti er voðinn vís hér á landi er þannig árar, þar sem gróðurhulan er víða í tætlum, sérstaklega á sumum afréttum.

Ekki kemst ég með tærnar þar sem þú hefur hælana í sambandi við gróðurstörf, enda hefur það ekki verið mín atvinna svo eðlilegt má teljast. Ég hef aðeins stundað skógræktarstörf í 23 ár sem sjálfboðaliði, þar af 19 í Fljótum undir styrkri stjórn Hjördísar Indriðadóttur frá Skeiðsfossi og hennar frábæru krökkum úr sveitinni. Þar hef ég tekið þátt í gróðursetningu, áburðargjöfum, vatnsburði, klippingum og grisjun á afar erfiðu svæði, þar sem engum vélum verður við komið. Allt borið á höndum upp í brattar brekkur. Ég hef sem sagt gróðursett plöntur sem Rarik hefur keypt (kannski af þér), plöntur sem Óskar heitinn Magnússon frá Brekku í Skagafirði gaukaði að mér í hverri ferð og svo plöntur sem ég ræktaði hér heima, svona þriggja og fjögura ára plöntur í tveggja til þriggja lítra pottum. Þetta er nú allt og sumt og bliknar í samanburði við þitt framtak. Því má bæta við að snjóþyngslin þar hafa sligað marga plöntuna og dýrin í Hálsaskógi haf étið þær ófáar. (Meira seinna.)

Þú spyrð svo um störf mín. Ég kenndi börnum frá 1967 til 2003. Síðan þá hef ég starfað sem húsamálari undir stjórn mannsins míns. Og meira að segja við, málararnir þráum orðið vætu þar sem við erum að rækta bæði hér heima og upp í sveit. Reyndar tók ég mér frí frá kennslu í tvö ár og starfaði þá sem "leirari".

Já, ég er viss um að flestir bændur eru mjög meðvitaðir um landið sem þeir hafa umráð yfir en töluvert margir eru ekkert meðvitaðir um ástandið þar fyrir utan. Bændur í Eyjafirði hafa farið í broddi fylkingar í skógrækt og er það hreinn unaður að ferðast þar um og upplifa það sem þar er að gerast. Og fjöllin fögru svíkja engan en allt hvíta plastið er ekki fyrir minn smekk. En trúlega á það eftir að hverfa er nýjir heyskapahættir verða teknir upp.

Ég sé ekkert athugavert við að styrkja alla þá sem að skógrækt og uppgræðslu koma, enda gangast bændur undir þau skilyrði að almenningur hafi aðgang að er fram líða stundir.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 16.7.2007 kl. 17:17

37 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæll Logi!

Já,við erum alltaf að læra eitthvað nýtt í ræktuninni. Að nota kindur í jarðrækt er náttúrulega alveg toppurinn á því öllu.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 16.7.2007 kl. 17:22

38 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl aftur Sigrún Jóna!

Lofaði skógræktarsögu. Í skógræktina í Fljótum komu allar tegundir grasbíta. Oftast kindur og voru þær verstar. 'Atu allt sem að kjafti kom. Næstir komu hestar. Þeir skemmdu meira með traðki og svo rifu þeir upp allar þær plöntur sem þeir á annað borð smökkuðu á. Kýrnar voru bara til góðs. Þær átu allt gras í kringum plönturnar svo maður losnaði við að klippa í kring. Auk þess báru þær duglega á. Vissulega getur skepnuhald og skógrækt farið saman er fram líða stundir. Hann Óskar frá Brekku, sem ég nefndi áðan, fékk lánaðar kindur á haustin til að hreinsa burt botngróður. Góð samvinna þar.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 16.7.2007 kl. 17:40

39 Smámynd: Begga

Mikil er fáfræði fólks þó svo að við búum á upplýsingaöld. Sorglegt að fólk skuli vilja láta þetta spyrjast út um sig. Ég er búin að lesa þessar umræður svo oft í dag að ég gat ekki lengur orða bundist. Ætla ekki að fara a blogga hér á mbl en vil bara koma minni skoðun á framfæri. Lifa bændur lúxuslífi??? Ég bara spyr??? Og eins og Sigurgeir Orri orðar það "moldríkir" bændur! Ég er komin af "stétt" bænda og ég hef ekki tekið eftir neinu ríkisdæmi þar. Veit ekki betur en að flestir bændur séu að þessu basli af hugsjónaástæðum einum saman nú til dags. Guð veit að ekki myndi ég nenna þessu basli og fá svo ekkert nema skít og skömm frá "malarbúum". Og hvernig dettur þér Margrét í hug að dásama það að bændastéttin hafi dáið út á vestfjörðum. Þetta er sorgarsaga. Ekkert annað. Hvernig þætti þér ef allt færi fjandans til þar sem þú býrð og þú þyrftir aað skiljua allt eftir (nota bene fá engann pening fyrir) og þurfa að byrja allt upp á nýtt annarsstaðar???? Það er ekki notalegt að allt sem þú hefur unnið að alla ævi sé verðlaust.  Það væri dásamlegt eða þannig ef allir "malarbúar" væru komnir með skika um allt land, hef ekkert á móti borgarbúum (enda bý ég í Reykjarvík). Og eigum við frekar að styðja bændastéttina í öðrum löndum??? Kostar ekkert að flytja þessar vörur inn?? Eða eigum við að fara öll út ð bíta gras bara?? Hvernig heldurðu að það færi með landið??? Og það er ekki allt bætt með ferðaiðnaðinum sama hvað fólk reynir að halda því fram.  Það vilja ekki allir vinna við þannig iðnað. Hvernig væri að setja hlutina þannig að fólk í Reykjavík myndi vinna við einn iðnað og fólk á Akureyri við annað og fólk á Egilstöðum við þriðja iðnaðinn. Heldur þú að það myndi ganga upp??? Nei það vilja flestir fá að ráða sjálfir hvar þeir búa og við hvað þeir vinna. Þegar það er tekið af okkur hvað er þá eftir???

Ætla ekki að móðga neinn en það eeru ekki allir hlutir einfaldir. Ég er mjög hlynnt því að allir hjálpist að við að græða upp landið okkar og við erum að því, en ekki bara að æða áfram án þess að skeyta um að það er framtíð fólks  í húfi.

Begga, 16.7.2007 kl. 20:33

40 Smámynd: Begga

Vonandi afsakið þið stafsetninguna en mér var svolítið heitt í hamsi þegar ég rita þetta.

Begga, 16.7.2007 kl. 20:36

41 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl og blessuð Begga!

Ég sagði ekki að bændur lifðu lúxuslífi, heldur að það væri lúxus að fá að búa í sveit. Mér finnst það.

Í sambandi við þessa "moldríku" vil ég bara benda á að bændur í dag geta orðið moldríkir með því að selja og hætta þessari "hugsjónarstarfsemi". Dugar jafnvel að selja fáeina hektara.

Er það hugsjón að "búa til að beita" þetta örfoka land?

Hef aldrei dásamað útdauða bændastét, aðeins dásamað gróður sem skýtur upp kollinum þegar beit er hætt. Ég bara get ekki vanist því þegar fólk er að búa til einhverjar staðhæfingar sem ég á að hafa skrifað en ég ekki einu sinni hugsað. Í sambandi við Vestfirðina sagði ég að allt hefði blómgast er byggð lagðist af. En í sjálfu sér er nóg að leggja af beit. Þá fyrst verða byggðir blómlegar í orðsins fyllstu merkingu. Og að sjálfsögðu harma ég það ef fólk missir eignir sínar. Foreldrar mínir flosnuðu reyndar upp, úr sveit,  með 10 börn og tvær hendur tómar, einmitt á sama tíma og fólksfækkunin var sem mest á Vestfjörðum. Við lentum reyndar mörg hér á Akranesi þar sem beið okkar nýtt líf með nýjum tækifærum.

Ferðamannaþjónustan hefur reyndar fært mörgum bóndanum nýtt líf og óska ég þeim til hamingju með það.

Ég skil ekki hvað þú meinar................."hvernig landið færi ef við færum öll að bíta gras"? Það er svolítill húmor í þér. Hvað með alla okkar frábæru garðyrkjubændur? Gætu þeir ekki hjálpað til við að auka grænmetisát?

Jú, jú það kostar sitt að flytja inn mat. Alla þessa suðrænu ávexti, hveiti, sykur, olíu, bensín, korn fyrir menn og skepnur og bara nefndu það. Sumt af þessu kemur með túristaflugvélum úr áli.

En át á kjöti og unnum kjötvörum getum við minnkað okkur að skaðlausu, enda er eldaður og mikið unninn matur óhollur. Ensímslaus og 80% bætiefna á bak og burt.

Viltu svo gjöra svo vel að rökstyðja þessa meintu "fáfræði" mína. Í hverju er hún fólgin?

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 16.7.2007 kl. 22:31

42 Smámynd: Kolgrima

Flippuð umræða sem hér fer fram. Ég hélt að það flokkaðist undir almenna þekkingu að beingreiðslur til bænda hefðu verið hugsaðar til þess að greiða niður matvælaverð. Það er í sjálfu sér ekki hárrétt að það hafi ekki tekist, því þótt lambakjöt sé mjög dýrt, væri það enn dýrara ef beingreiðslna nyti ekki við.

Enda gefur ein ær ekki af sér mörg kíló af kjöti á ári - kannski 25-40. Á sama tíma getur gylta gefið af sér þúsundir kílóa af svínakjöti. Í ljósi þessa er ekkert óeðlilegt að lambakjöt skuli vera munaðarvara.

Fólk getur verið á móti sauðfjárrækt. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Hitt þykir mér verra, þegar fólk leyfir sér að skemma íslenskt landslag og breyta íslenskri flóru með útlendum hryllingi eins og lúpínu og barrtrjám. Í mínum huga flokkast það undir náttúruspjöll og þau af verri endanum, jafnt þótt þau séu framin af góðum hug. Þeir sem slíkt gera, eyðileggja ásýnd landsins og svipta afkomendur mína tækifærinu til að kynnast hinni einstöku íslensku náttúru. Mér finnst enginn hafa til þess rétt.

Ísland á að líta út eins og Ísland en ekki eins og Noregur.

Það er alveg kominn tími til þess að leyfa landinu að njóta einhvern tíma vafans - líka í friði fyrir þeim sem líta svo á að því þurfi að breyta því það sé ekki nógu fallegt eins og það er.

Með hlýnandi loftslagi og minnkandi ofbeit, mun náttúrulegur gróður ná sér hratt á strik. Við hljótum að geta beðið eftir því.

Með bestu kveðju, Ragnhildur Halldórsdóttir

Kolgrima, 17.7.2007 kl. 15:04

43 identicon

Ég ætlaði ekki að skrifa fleiri commenta hérna. En þegar mynnst er á garðyrkjubændur, þá er höggið nærri mér.

Fleiri tugir garðyrkjubýla, ef ekki hundruð hafa síðustu 20 árin hætt rekstri vegna fyrst aðeins hefts innflutning. en núna nær óhefts. Og í vor var komið að sumarblómunum.

Kveðja frá þeirri sem ræktaði útiræktað grænmeti sumar-fjölær og tré og runna garðtré og skógarplöntur. að ógleymdum ylræktuðu grænmeti. 

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 16:00

44 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl Ragnhildur!

Ef einhver hefur skemmt íslenskt landslag í gegnum tíðina þá er það kindin. Komist hún í holu í barði breytir hún henni umsvifalaust í rofabarð. Það er jú svo gott að kúra þar. Með tímanum stækkar það og stækkar og veður og vindar hjálpa til við eyðilegginguna. Kíktu á blogg Herdísar Þorvaldsdóttur og sjáðu nýjustu myndirnar, sem teknar voru 13.7. í einum afrétti landsins.  herdisthorvaldsdottir.blog.is

Já, satt segir þú, íslensk náttúra er alveg einstök, því eins og þú veist,  þá er hún  stærsta manngerða eyðimörk í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Kallar þú það fallega sjón?

Allir góðir landnemar eru jafn velkomnir hingað, líka plöntutegundir. Hugsaðu þér t.d. hvað Evrópa væri fátæk af gróðurtegundum ef ekki hefðu verið fluttar inn allar þessar tegundir frá Ameríku og Asíu þarna í denn. Og í görðum okkar væru bara blágresi, fíflar og sóleyjar, sem mér reyndar finnast hinar fegurstu jurtir. En.....ég vil fleiri tegundir.

Ekki gleyma því að við vorum einu sinni landnemar hér og komum með nýjar dýrategundir með okkur. Hver veit nema að ein og ein jurt hafi líka verið í farteskinu. Nei, því miður, það er ekkert upprunanlegt við gróðurfar á Íslandi. Lyng og mosi voru t.d. ekki svona víðfeðm fyrr en jarðvegurinn var orðinn of rýr eða horfinn. Mosi, lyng og grös eru algengustu jurtategundirnar á þessum 1/4 hluta landsins. Við verðum einfaldlega að beita öllum tiltækum ráðum til að endurheimta gróðurhulu og jarðveg.

En.............ég er sammála niðurlagi bréfs þíns. minnkandi beit á eftir að breyta miklu til batnaðar. En ég er svolítið hrædd við þurrkana sem fylgja hlýindunum þar sem gróðurhulan okkar er víðast hvar þunn og viðkvæm, m.a. vegna ofbeitar.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 17.7.2007 kl. 20:01

45 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl og blessuð Sigrún Jóna!

Ég ætla bara rétt að vona að ég hafi ekki höggvið nærri garðyrkjubændum, því ef þú hefur skilið það sem svo, þá er það bara misskilningur. Ég þvert á móti vil hafa garðyrkjubændur á hverju strái. Ég held nú reyndar að hátt rafmagnsverð hafi gert útslagið með allar þessar lokanir, því miður.  Auðvitað ættu þeir sem nota mikið rafmagn að fá það ódýrara en aðrir.  Eins og álið. Fá t.d. ekki sauðfjár- og kúabændur líka ódýrari olíu, þar sem þeir þurfa að nota svo mikið af henni við vinnu í heimahögum? Ættu garðyrkjubændur ekki líka að fá einhverja ívilnun? Allt sem tengist gróðri ætti að efla, það hef ég margoft sagt. Sæi ekki eftir krónu sem þangað færi. Ekki heldur eftir því sem þaðan færi í hendur bænda til gróðursetningar.

Svo vil ég segja þér að ég kaupi aldrei innflutt grænmeti, sé til íslenskt. Hins vegar kaupi ég innflutta  mjólk, sojamjólk, þar sem ég hef lagt mjólkurafurðir til hliðar..................nema spari, spari.

Mikið vildi ég óska að ég hefði upplifað það að koma í garðyrjustöðina þína, því ég elska svoleiðis staði og alla þá staði er selja jurtir.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 17.7.2007 kl. 20:22

46 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Eitt enn góðir hálsar!

Hér á Akranesi er flottasta garðyrkjustöð á Íslandi (sem ég hef komið í) og þar framleiðir Oddur og fjölskylda, ásamt mörgum starfsmönnum, þær fegurstu og hraustustu plöntur sem völ er á. Þær bara gerast ekki betri. Allt í lagi að kaupa innfluttar séu þær ekki ræktaðar hér, en athugið fyrst hvort þær eru  til hér.............og að ég  tali nú ekki um frá Oddi.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 17.7.2007 kl. 20:29

47 Smámynd: Kolgrima

Sæl aftur Margrét.

Því fer fjarri að ég líti á Ísland sem eyðimörk, þvert á móti. Ég er gjörsamlega heilluð af íslensku gróðurfari og dáist af fjölbreytni og fegurð íslenskrar gróðurþekju. Gróðurinn er hluti af fegurð landsins.

Annars urðu orð þín um tegundafátækt, í íslenskum görðum kveikjan að mínu eigin bloggi um málið.

Með bestu kveðju, Ragnhildur

Kolgrima, 18.7.2007 kl. 13:44

48 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl aftur Ragnhildur!

Þar sem fólk, svona yfirleitt, á rætur, þar þykir því fallegast. Sama hvort það er fætt og uppalið í eyðimörk, skóglendi, dölum, við ströndina, í stauralandi............eða bara hvar sem er. Sá sem er fæddur og uppalinn á Íslandi finnst allt flottast og best þar, sama hvernig allt er. Fólk er bara vant þessu og finnst að svona hafi það alltaf verið og svona eigi það  að vera.  En svo eru til fuglar eins og ég sem komast að því að það er ekki allt með felldu og vilja gjarnan fá úrbætur.

Ég er sammála þér að "landið er fagurt og frítt"  en burt er megnið af gróðrinum og hann vil ég einfaldlega fá aftur. Ég veit að það eru margir eins og þú, sem finnst þetta bara allt í lagi, þar sem allt er svo fínt í ykkar heimahögum . En á 75% landsins er ekki eitt stingandi strá. Frá landnámi hefur þessi tala snúist við, því áður huldi gróður landið um 75% af því. Þessar 25% sem á vantaði voru jöklar, hraun, ár, sandar, vötn og klettar.  

En sammála er ég þér með íslensku jurtirnar, þær eru fallegar. Uppáhalds blómin mín flokkast reyndar undir illgresi en það skiptir mig engu máli, því þau eru fögur. Ekkert jafnast á við fíflabreiður á vorin og sóleyjabreiður á sumrin. Hvönn og njóli eru líka í miklu uppáhaldi, svo og þær plöntur sem flokkast undir "nýbúa" (60 ára og eldri), lúpína og kjörvell. Ég elska líka okkar kræklótta kjarr og finnst tími til kominn að friða allt kjarr á Íslandi.

Ég vorkenni þér og öllum þeim sem eru ánægðir með núverandi ástand gróðurhulunnar á landinu okkar fagra. Það er reyndar afar sorglegt. Hugsaðu þér ef allir væru ánægðir með það, þá væri bara ekki nokkur lifandi maður að sá í moldarbörð né rækta skóga í dag. En sem betur fer hafa margir vaknað til vitundar um lélegt ástandið og hafa tekið höndum saman um að endurheimta  fyrri ásýnd.

En þó svo að margir stundi landgræðslu í dag er það bara svo hryllilega mikið sem eftir er, en það mætti flýta batanum með því einfalda ráði að setja allar skepnur í beitarhólf. Nota beingreiðslurnar í girðingar. Halda svo áfram af margföldum krafti að sá og gróðursetja. Um það snúast mín skrif, fyrst og fremst.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 18.7.2007 kl. 21:47

49 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæl aftur Ragnhildur!

Þar sem fólk, svona yfirleitt, á rætur, þar þykir því fallegast. Sama hvort það er fætt og uppalið í eyðimörk, skóglendi, dölum, við ströndina, í stauralandi............eða bara hvar sem er. Sá sem er fæddur og uppalinn á Íslandi finnst allt flottast og best þar, sama hvernig allt er. Fólk er bara vant þessu og finnst að svona hafi það alltaf verið og svona eigi það  að vera.  En svo eru til fuglar eins og ég sem komast að því að það er ekki allt með felldu og vilja gjarnan fá úrbætur.

Ég er sammála þér að "landið er fagurt og frítt"  en burt er megnið af gróðrinum og hann vil ég einfaldlega fá aftur. Ég veit að það eru margir eins og þú, sem finnst þetta bara allt í lagi, þar sem allt er svo fínt í ykkar heimahögum . En á 75% landsins er ekki eitt stingandi strá. Frá landnámi hefur þessi tala snúist við, því áður huldi gróður landið um 75% af því. Þessar 25% sem á vantaði voru jöklar, hraun, ár, sandar, vötn og klettar.  

En sammála er ég þér með íslensku jurtirnar, þær eru fallegar. Uppáhalds blómin mín flokkast reyndar undir illgresi en það skiptir mig engu máli, því þau eru fögur. Ekkert jafnast á við fíflabreiður á vorin og sóleyjabreiður á sumrin. Hvönn og njóli eru líka í miklu uppáhaldi, svo og þær plöntur sem flokkast undir "nýbúa" (60 ára og eldri), lúpína og kjörvell. Ég elska líka okkar kræklótta kjarr og finnst tími til kominn að friða allt kjarr á Íslandi.

Ég vorkenni þér og öllum þeim sem eru ánægðir með núverandi ástand gróðurhulunnar á landinu okkar fagra. Það er reyndar afar sorglegt. Hugsaðu þér ef allir væru ánægðir með það, þá væri bara ekki nokkur lifandi maður að sá í moldarbörð né rækta skóga í dag. En sem betur fer hafa margir vaknað til vitundar um lélegt ástandið og hafa tekið höndum saman um að endurheimta  fyrri ásýnd.

En þó svo að margir stundi landgræðslu í dag er það bara svo hryllilega mikið sem eftir er, en það mætti flýta batanum með því einfalda ráði að setja allar skepnur í beitarhólf. Nota beingreiðslurnar í girðingar. Halda svo áfram af margföldum krafti að sá og gróðursetja. Um það snúast mín skrif, fyrst og fremst. Um tegundavalið er reyndar upprisin taugveikluð stétt út í alla nýbúa í landinu, sama hvort um menn eða plöntur er að ræða.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 18.7.2007 kl. 21:59

50 Smámynd: Renata Sigurbergsdóttir Blöndal

Ert þú rollubóndi?

Renata Sigurbergsdóttir Blöndal, 19.7.2007 kl. 01:27

51 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Góðan dag Renata!

Ef ég væri það þá væru allar mínar rollur í beitarhólfum, svo mikið er víst.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 19.7.2007 kl. 06:28

52 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Gott kvöld  Haukur Dór, Skagamaður, landvörður, kennari og ég veit ekki hvað og hvað. Púff!

Það er mér mikill heiður að þú skulir halda að ég sé mjög víðlesin í Landnámu og öðrum gömlum ritum . Það er þó, því miður, ekki til að dreifa, því öll mín bandvitlausa og forneskjulega vitneskja er úr masters- og doktorsskrifum núlifandi vísindamanna landsins. Svo og skrifum frá þeim seinna, úr rannsóknarvinnu, birtum  í hinum ýmsu ritum. Mín vitleysa er sem sagt þaðan komin, líka allar prósentur, svo sem eins og 75% gróður við landnám og 25% gróður nú. Þar af 4-5% heil og 20% rofin, mismunandi mikið. Ég veit að það er mjög erfitt að trúa þessu, en ef þú ferð að skoða þetta á ferðum þínum um landið, vítt og breitt, þá sérðu þetta sjálfur.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 19.7.2007 kl. 21:34

53 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæll Haukur Dór!

Nú sé ég eftir því að hafa farið að ráðum blaðamnns Morgunblaðsins í upphafi, en þá vitnaði ég alltaf beint í þau rit sem ég var að taka upp úr. Hann sagði að það væri alveg óþarfi þegar ekki væri um vísindaskrif að ræða eða þá sem sönnum fyrir rétti. Svo ég lagði þetta á hilluna.

Hafðu bókina Jarðvegsrof á Íslandi með þér í ferðina. Hún gæti nýst þér vel við að læra að lesa landið þitt. Hún er eftir marga höfunda sem rannsökuðu ástand landsins í mörg ár.

Svo ráðlegg ég þér að lesa rit skógræktarfélags Íslands í gegnum árin. Þá rit Landgræðslunnar. Öll eru þau stútfull af fróðleik um ástandið. En því miður hef ég ekki tíma til að fara yfir þessi rit núna, til að finna eitthvað fyrir þig, þú verður bara að hafa fyrir því sjálfur.

Kíktu svo á landbúnadur.is og kvasir.is

Góða ferð,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 21.7.2007 kl. 11:11

54 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Haukur Dór!

Hér eru nokkur nöfn höfunda, en alls ekki tæmandi listi: Ólafur Arnalds, Ása L. Aradóttir, Björn Sigurbjörnsson og Andrés Arnalds. Finn fleiri seinna.

Góð byrjun er að fara inn á landbunadur.is eða kvasir.is eða eitthvað annað .is,  fletta þar upp á greinarsafninu og skella inn leitarorði, t.d. rof, landeyðing, jarðvegseyðing eða eitthvað annað. Þú getur líka leitað í gegnum nöfn. En þetta kanntu allt sem góður fagmaður í kennarastét, ekki satt? Svo má reyna að leita hjá Landgræðslunni, Skógræktinni, Bændasamtökunum , Kolviði og sjálfsagt fleiri stöðum.

Að lokum þetta. Ég bara vona að þú sért sá eini í íslenskri kennarastétt sem hefur svona bágborna vitneskju um ástand gróðurs og jarðvegs á landinu okkar fagra.

Mitt ráð til þín er að þú hafir með þér fáein lúpínufræ í farteskinu og sáir þeim í eitthvert sárið af milljón í þessu landi. Þá getur þú bókað að það verður enn fallegra í framtíðinni.

Góða ferð,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 21.7.2007 kl. 16:01

55 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Sæll Haukur Dór!

Velkominn heim.

Það er eitt að vera hreinskilinn og annað að vera ókurteis.

Já, það er mín skoðun, að þú hafir bágborna vitneskju um slæmt ástand gróðurhulunnar, þar sem þér finnst það allt í lagi eins og það er, 25% gróður og hann í tætlum. Taktu eftir, það er skoðun mín. Ég er ekkert ókurteis að lýsa því yfir, bara hreinskilin. Ég er ekkert að biðja þig að skammast þín fyrir þína bágbornu vitneskju, ég bara harma hana. Ég væri ókurteis ef ég segði þér að skammst þín fyrir hana.

Þín skoðun á ástandi landsins hryggir mig aðeins en ég fordæmi þig ekkert fyir hana.

Ég vil endurheimta gróður og jarðveg. Mín vegna má nota hvaða tegundir sem er, bara að þær skili árangri. Þú veist nú, að lúpínubreiður má nýta sem beitarland er fram líða stundir og þá hverfur lúpínan og öðrum tegundum má sá í frjóan jarðveginn sem lúpínan hefur gert. Og allir sáttir, ekki satt?

En ég er ekki í vafa um að þegar þú hefur lesið allar tiltækar greinar eftir mastera, doktora og aðra fagmenn hjá Landbúnaðarháskólanum, sem og annars staðar, þá snýst þér hugur. Þangað til bið ég þig vel að lifa og njóta alls sem þú lest.

Ekki gleyma bókinni "Jarðvegsrof á Íslandi".

Hér er ein tillaga að lestrarefni fyrir þig  í viðbót. Bls. 63 - 77 í 2.tbl. Skógræktarrits Skógræktarfélags Íslands, 2001

Finn meira seinna. Af nógu er að taka.

En mundu að aðal inntak skrifa minna er að hætta beingreiðslum til sauðfjárbænda, þar sem við erum þá orðin þátttakendur í ofbeitinni á viðkvæmum svæðum landsins. Hugsaðu þér, við erum að borga með gróðureyðingunni!

Allar skepnur í beitarhólf.

Kíktu svo endilega á myndirnar hennar Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur á herdisthorvaldsdottir.blog.is

Þær sanna mál mitt.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 22.7.2007 kl. 19:02

56 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Góðan daginn Haukur Dór!

Þú mátt hafa þína skoðun þótt mér þyki upplýsingarnar á bak við hana bágbornar (af skornum skammti).

En ég ætla bara að biðja þig fyrir alla muni að gera mér ekki upp skoðanir, eins og þú gerir í þessu síðasta bréfi. Það eru bara hrein ósannindi og dónaskapur. 

Blessaður lestu svo vel yfir áður en þú  tileinkar einhverjum eitthvað sem þeir eiga að hafa sagt.

Ég elska líka landið, jökla, fjöll, kletta, fossa, ár, vötn læki, lundi, sanda og nefndu það bara. Hver gerir það ekki? En ég vil endurheimta gróðurhuluna með öllum tiltækum ráðum. Gulur, rauður, grænn eða blár, skiptir ekki máli, því gróðurinn er alltaf fallegur.

Ertu ekki glaður að hafa atvinnu af að slá lúpínuna? Útivinnan göfgar.

Þó einhverjir í kringum þig séu sáttir við beingreiðslur,  þá er fólkið í kringum mig mjög ósátt, svo ekki sé meira sagt.

Vertu svo duglegur að lesa allt sem ég hef bent þér á. Þú baðst um það.

Bestu kveðjur,

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 24.7.2007 kl. 06:38

57 Smámynd: Margrét Jónsdóttir

Haukur Dór!

Þetta snýst ekki um mína persónu, ekki um hvað ég hef lesið, gert  eða ekki gert.  Þetta snýst um að vera á móti því að halda upp heilli stétt bænda, allt að 60% og vera þar af leiðandi þátttakandi í að eyða gróðri á viðkvæmum stöðum. Þetta snýst um að friða viss svæði og koma skepnum í beitarhólf og beitarstýringu. Þetta snýst um að græða upp landið eftir öllum mögulegum leiðum og að við notum skattpeningana til þess en ekki til að brauðfæða fullfrískt fólk.

Skjáumst í haust.

Margrét

Margrét Jónsdóttir, 25.7.2007 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband